spot_img
HomeFréttirTíminn þar sem leikmenn styrkja sig og stjórnarmenn falbjóða sig

Tíminn þar sem leikmenn styrkja sig og stjórnarmenn falbjóða sig

Áður en ég hef fyrsta pistil komandi tímabils Domino´s deildar karla og kvenna hyggst ég hverfa aðeins til fortíðar og óska Snæfell og KR til hamingju með Íslandsmeistaratitla síðasta tímabils. Nóg um það, enda er auðvitað öllum sama um fortíðina nema fornleifafræðingum, sagnfræðingum og aðdáendum Liverpool.

Þegar þessi orð eru rituð er júlí – mánuðurinn þar sem allir leikmenn sem spilað höfðu yfir 15 mín að meðaltali í leik, hvort sem það var fyrir meistaraflokk,  8. Flokk eða í utandeild Breiðabliks, voru valdir í landsliðshóp. Það sem einkennir þó einna helst júlí er að það er mánuðurinn sem 14% leikmanna er inni í lyftingarsölum og að „drilla“ og skjóta til að bæta sig fyrir átök vetrarins. Restin er í vaktarvinnu til að eiga fyrir derhúfu og hvítum skóm eða komin með hugann til Vestmannaeyja.

Júlí er einnig mánuður stjórnarmannanna. Mánuðurinn sem stjórnarmenn allra liða í Domino´s deildunum falbjóða sig eins og þingmenn framsóknarflokksins korteri fyrir kosningar. „Ef þú bara semur við okkur munu himnanir opnast, rigna mun peningum og þú þarft aldrei áhyggjur að hafa í lífinu…“ er líklega um það bil orðrétt lofræða sem flestir leikmenn hafa heyrt undanfarin misseri. Ég tala nú ekki um ef umræddir leikmenn skríða yfir 194 cm, geta tekið 40 kg í bekk og hafa einhverntíman skorað yfir 5 stig í leik! Í lok júlí er fíaskóið og panikkið orðið svo mikið að meira að segja eftirlegukindum tímabilsins á undan eru boðnar fúlgur fyrir það eitt að vera í æfingahóp. Þá hefjast símhringingar í gamla menn og frændur þeirra sem einhverntímann hafa sést kasta bolta, þarf ekki einu sinni að vera hringlaga, í rúmlega þriggja metra hæð og þeim boðnir samningar, fríir skór og mattarúttektir í Nettó gegn því að hripa nafn sitt á laskað A-4 blað í svart/hvítu því klúbburinn hafði ekki efni á litaprentara. Þekki þetta svo sem sjálfur. Svo desperat var ég nú sem stjórnarmaður Keflavíkur hér eitt árið að ég hringdi í sjálfan mig með það fyrir augum að gera mér tilboð. Það var blessunarlega á tali!

Nokkur lið eru þó þegar búin að gera góða „díla“ og það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með væringum á íslenska leikmannamarkaðnum. Hvort sem það eru samningar við gæða leikmenn, sameining fjölskyldu og vina, lið sem taka að sér hlutverk Hrafnistu út á landi eða samningar við landsliðsmenn til þess eins að svekkja sig á að missa þá strax aftur er ljóst að margt mjög áhugavert er í gangi. Áhugaverðast enn sem komið er er þó flóttamannastraumurinn í Breiðholtið! Það verður ekki sagt annað en að nýr formaður ÍR, Kristján Pétur Andrésson, sé búinn að vera duglegur frá því hann tók við embætti. Ég vill meina að þetta hljóti annaðhvort að lýsa brjáluðum metnaði Kristjáns í að standa sig sem formaður eða þeirri brjálæðislegu trú sem maðurinn hefur á sér sem leikmanni – að hann hafi séð þann kost vænstan að fylla liðið af gæðaleikmönnum þegar hann lagði skóna á hilluna. Þjakaður af sinaskeiðabólgu eftir öll handsölin og undirritanirnar við nýja leikmenn má ætla að næsta undirskrift verði við  pennaframleiðandann BIC enda stendur enginn klúbbur undir allari þessari bleknotkun. Fyrir utan þá staðreynd að þetta eru allt gæðaleikmenn þá eiga þeir það allir sammerkt að hafa líkama og andlit sem eru vel til þess fallin að prýða 2017 útgáfuna af dagatali sundskýluframleiðandans SPEEDO. Ef fram heldur sem horfir mun fyrrum* fallegasti og massaðasti leikmaður ÍR, lögmaðurinn og járnkarlinn Sveinbjörn Claessen, ekki einu sinni fá sinn eiginn mánuð!

Já, það er svo sannarlega tilhlökkun í Breiðholtinu. Hvernig er líka annað hægt? Liðið er loksins komið aftur með nógu gott lið á pappírunum svo gera megi væntingar til þess…  og valda svo vonbrigðum!

Gleðilegt sumar!

*Núverandi fallegasti og massaðasti leikmaðurinn er augljóslega Matthías Sigurðsson en ef ég væri ekki nú þegar allt að því giftur með tvö börn væri ég staddur í röð fyrir utan Bankastræti 5 í þessum skrifuðu orðum að reyna að komast inn til að hössla kvikindið – líklega þó við takmarkaðar undirtektir!

Fréttir
- Auglýsing -