Skagamenn í ÍA tóku í kvöld á móti Ármenningum frá Reykjavík. Fyrir leikinn ÍA var ÍA í 7. Sæti með 6 stig á meðan Ármann var í 11. Sæti með 2 stig. Skagamenn voru staðráðnir í því að reyna að tengja tvo sigra í fyrsta skipti á tímabilinu á meðan Ármenningar vildu að binda enda á tveggja leikja taphrinu, ef hrinu skyldi kalla.
Leikurinn var nokkuð jafn í fyrsta leikhluta en í stöðunni 20-18 þegar um tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta má segja að leiðir hafi skilið. Skotnýting Skagamanna í fyrri hálfleik var virkilega góð á meðan Ármenningar áttu erfitt uppdráttar sóknarlega. Á meðan stigaskor heimamanna var að dreifast nokkuð var Devaughn Jenkins með 19 af 39 stigum gestanna í fyrri hálfleik. Það var svo í þriðja leikhluta sem heimamenn gerðu endanlega út um leikinn, leikhlutinn fór 25-10 fyrir ÍA og síðasti leikhluti var í raun bara formsatriði fyrir liðin að klára og loka tölur leiksins 94-67, öruggur sigur ÍA.

Hjá Ármenningum var Jenkins stigahæstur með 19 stig, öll í fyrrihálfleik en hann spilaði einhverra hluta vegna ekki margar mínútur í þeim síðari. Enginn annar leikmaður hjá Ármanni náði tveggja stafa tölu en Guðjón Hlynur og Eyjólfur Ásberg voru með 8 stig hvor.
Hjá ÍA var Aamondae Coleman með tvöfalda tvennu en hann var stigahæstur á vellinum með 21 stig auk þess að taka 10 fráköst. Srdan Stojanovic átti flottann leik og endaði með 16 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Styrmir Jónasson kom af miklum krafti inn í leikinn í kvöld og setti 14 stig, Lucien Christofis stjórnaði leik ÍA vel og setti 11 stig og Aron Elvar var flottur með 9 stig líkt og Chimaobim Oduocha.

Athyglisverð atriði frá leiknum í kvöld:
-Sigurbaldur, annar dómara kvöldsins, dæmdi sinn fyrsta leik á ferlinum á Jaðarsbökkum á Akranesi árið 2011
-Devaughn Jenkins skoraði sína fyrstu 3ja stiga körfu á tímabilinu í kvöld
-Ármann leiddi tvisvar í leiknum, 6-7 og 10-11
-23 af 67 stigum Ármenninga komu af bekknum
-23 af 94 stigum ÍA komu af bekknum
-Allir leikmenn beggja liða spiluðu í leiknum
– Gabriel Adersteg, sem lék með ÍA á síðasta tímabili, lék sinn síðasta leik fyrir ÍR á móti ÍA 10. nóvember síðastliðin og lék í kvöld sinn fyrsta leik með Ármanni, einmitt á móti ÍA
-ÍA og Skallagrímur eru jöfn eftir 8 leiki, í bókstaflegri merkingu, í 6. og 7. sæti eftir leiki kvöldsins, bæði lið með 8 stig og samanlagt stigaskor liðanna úr leikjum sínum eru -8 stig. Liðin mætast einmitt í Borgarnesi í næsta leik.
Tölfræði leiks
Umfjöllun: HGH
Myndir: Jónas H. Ottósson
Upptaka af leiknum með viðtölum