21:11
{mosimage}
(Stjörnumenn fögnuðu vel í Ásgarði í kvöld)
KR og Stjarnan munu leika til úrslita í Subwaybikar karla eftir að Stjarnan lagði Njarðvíkinga 83-73 í undanúrslitum keppninnar. Þetta er í fyrsta sinn sem Stjarnan leikur til bikarúrslita en félagið er á sínu þriðja ári í efstu deild. Justin Shouse fór mikinn fyrir heimamenn í kvöld og gerði 29 stig og gaf 8 stoðsendingar en mikill fögnuður braust út í Ásgarði þegar lokaflautan gall. Magnús Gunnarsson átti stórleiki í liði Njarðvíkinga með 29 stig og 8 fráköst en það dugði ekki til og því leika KR og Stjarnan til úrslita.
Justin Shouse fór fyrir Stjörnumönnum í upphafi leiks og kom heimamönnum í 12-4 með þriggja stiga körfu. Stjarnan komst svo í 17-6 með þrist frá Jovan Zdravevski en við svo búið fóru Njarðvíkingar í gang og náðu að minnka muninn í 21-16 og þannig stóðu leikar að loknum fyrsta leikhluta þar sem allt var á suðupunkti millum miðherjanna Fannars Helgasonar og Friðriks Stefánssonar en minnstu mátti muna að til ryskinga kæmi þeirra á milli. Njarðvíkingar voru ískaladir í byrjun leiks og brenndu af sex fyrstu þriggja stiga skotum sínum en það átti eftir að breytast fyrir tilstilli Magnúsar Gunnarssonar.
Ágúst Dearborn kom sterkur inn af Njarðvíkurbekknum og snemma í öðrum leikhluta náðu Njarðvíkingar að komast yfir með þriggja stiga körfu frá Magnúsi Gunnarssyni, 24-26. Kjartan Atli Kjartansson hélt Stjörnumönnum við efni og setti þrist og breytti stöðunni í 32-26 en liðin gengu svo til hálfleiks í stöðunni 35-30 fyrir Stjörnuna.
{mosimage}
Stjarnan virtist ætla að stinga af í upphafi síðari hálfleiks en Magnús Þór Gunnarsson vildi ekki heyra á það minnst og minnkaði muninn í 42-38 með þriggja stiga körfu. Strax í næstu sókn lét Jovan Zdravevski þriggja stiga skot upp í loftið sem fór í netið og brotið á Jovani um leið sem setti niður vítaskotið og fjögurra stiga sókn í hús hjá Stjörnunni sem sleit sig fyrir vikið frá Njarðvík um sinn. Kjartan Atli Kjartansson var að hitta vel fyrir Stjörnuna sem leiddi 62-52 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Njarðvíkingar komu grimmir til leiks í fjórða leikhluta og á miklum spretti komust þeir yfir 62-63 með 11-0 áhlaupi. Hver þriggja stiga karfan á fætur annarri datti í netið hjá Njarðvíkingum en Stjörnumenn eygðu sína fyrstu för í Laugardalshöll og létu ekki deigan síga. Kjartan Atli og Logi Gunnarsson skiptust á þristum og staðan var orðin jöfn 73-73 þegar rétt rúmar tvær mínútur voru til leiksloka.
Þegar allt var komið í járn ákvað Justin Shouse að taka til sinna ráða og leiddi Garðbæinga einn síns liðs inn í Laugardal og þar mun Stjarnan reyna við sinn fyrsta bikarmeistaratitil. Þegar 52 sekúndur voru til leiksloka fékk Shouse tvö vítaskot og kom Stjörnunni í 79-73. Næsta sókn Njarðvíkinga rann út í sandinn og aftur var brotið á Shouse sem kom heimamönnum í 81-73 af vítalínunni þegar 40 sekúndur voru eftir og þar með var björninn unninn.
{mosimage}
Þeir miðherjar Friðrik Stefánsson og Fannar Helgason börðust af miklum krafti í kvöld og mátti minnstu muna að upp úr syði. Magnús Þór Gunnarsson fór fyrir Njarðvíkingum í kvöld og sýndi enn eina ferðina að þegar fallbyssan hefur læst miðið þá geigar hún ekki. Því miður fyrir Njarðvíkinga var hann einn um að draga vagninn á löngum köflum en inn á milli sýndi Logi Gunnarsson hvers hann er megnugur. Á meðan geta Stjörnumenn þakkað Justin Shouse farseðilinn í Laugardalshöll en þeir Jovan Zdravevski (24 stig og 8 fráköst) og Kjartan Atli Kjartansson (18 stig og 3 fráköst) áttu einnig glimrandi dag í Ásgarði.
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



