spot_img
HomeFréttirTilþrifalítið í Ljónagryfjunni

Tilþrifalítið í Ljónagryfjunni

22:53 

{mosimage}

Njarðvíkingar hafa tekið 1-0 forystu í einvígi sínu gegn Hamri/Selfoss í úrslitakeppninni í Iceland Express deild karla. Njarðvík lagði H/S 79-75 í hádramatískum leik þar sem óhætt er að segja að Pétur Ingvarsson, þjálfari H/S, hafi haft afdrifarík áhrif á leikinn. Körfuboltinn sem leikinn var í Njarðvík í kvöld verður seint talinn fallegur en bæði lið voru þétt fyrir í vörninni og stundum ansi gróf tilþrif sem litu dagsins ljós. Þegar sex sekúndur voru til leiksloka gerði Pétur Ingvarsson afdrifarík mistök sem kostuðu Hamar/Selfoss leikinn þegar hann fékk dæmda á sig tæknivillu fyrir að labba inn á leikvöllinn. Svo virtist sem að Pétur hefði beðið um leikhlé er hann var kominn inn á leikvöllinn en svo mikið er víst að um leið og tæknivítið var dæmt þá varð fjandinn laus.

 

Það er slæmur siður hjá Njarðvíkingum að tapa nokkrum boltum í upphafi leiks og svo varð úr í kvöld. George Byrd kom gestunum í 0-3 með þriggja stiga körfu eftir þrjár klaufalegar upphafssóknir hjá Njarðvíkingum. Heimamenn réðu þó fljótt bót á sínum málum og breyttu stöðunni fljótlega í 12-6. Egill Jónasson kom sterkur inn af bekknum í fyrsta leikhluta og tróð boltanum yfir Svavar Pálsson og kom Njarðvík í 23-13. Hamar/Selfoss fór í síðustu sókn leikhlutans og keyrði Friðrik Hreinsson upp að körfunni en þar var Egill mættur og varði skot hans með glæsibrag. Staðan 23-13 Njarðvík í vil að loknum fyrsta leikhluta og allt útlit fyrir að heimamenn væru að stinga af.

 

Gestirnir voru þó ekki af baki dottnir og þegar líða tók á annan leikhluta komust þeir upp að hlið Njarðvíkinga 36-36 þegar George Byrd og Lárus Jónsson gerðu tvær þriggja stiga körfur í röð. Það voru þó heimamenn sem leiddu þegar liðin gengu til hálfleiks 40-39 þar sem Jóhann Árni Ólafsson gerði síðustu stig leikhlutans á vítalínunni.

 

Brenton Birmingham var með 10 stig í liði Njarðvíkinga í hálfleik en George Byrd var með 12 stig fyrir Hamar/Selfoss og hann og Friðrik Hreinsson komnir með þrjár villur.

 

Þriðji leikhluti var æsispennandi þar sem liðin skiptust á því að hafa forystuna og Njarðvíkingar biðu eftir því að einhver í liðinu myndi byrja að draga vagninn eins og verið hefur venjan hjá liðinu í síðari hálfleik undanfarið. Enginn bauð sig fram og því leiddu gestirnir 58-60 að loknum þriðja leikhluta og voru þeir grimmir í öllum sínum aðgerðum og uppskáru samkvæmt því.

{mosimage}

 

Í fjórða leikhluta hélt vonleysi Njarðvíkinga áfram í sókninni og Hamar/Selfoss gekk á lagið og komust í 63-70 en Njarðvíkingar voru fljótir að brúa bilið niður í 68-70 og komust síðar yfir 74-72. Þegar um 50 sekúndur voru til leiksloka setti Marvin Valdimarsson niður risaþrist fyrir Hamar/Selfoss og breytti stöðunni í 74-75 fyrir gestina. Brenton Birmingham sýndi sínar bestu hliðar þegar hann kom Njarðvíkingum yfir að nýju í 76-75 er hann keyrði upp að körfunni og lagði boltann í netið og þá voru 24 sekúndur til leiksloka. Margir vildu meina að um ruðning væri að ræða því Brenton keyrði niður George Byrd en ekkert var dæmt og Hamar/Selfoss hélt í síðustu sókn leiksins.

 

Gestirnir sátu vel á boltanum og komu honum að lokum inn í teig á George Byrd. Um sex sekúndur voru til leiksloka og Byrd ætlaði sér fram hjá Friðrik Stefánssyni en dæmt var á hann sóknarvilla og Njarðvíkingar fengu boltann. Við þetta upphófst mikill hamagangur í Ljónagryfjunni með þeim afleiðingum að Pétur Ingvarsson, þjálfari Hamars/Selfoss, gekk inn á völlinn og uppskar tæknivillu fyrir vikið og þar með kastaði hann leiknum endanlega frá sér og sínum mönnum. Njarðvíkingar kláruðu leikinn á vítalínunni og lokatölur 79-75 eins og áður greinir en liðin mætast að nýju í Hveragerði á sunnudag. Takist Njarðvíkingum að vinna þar eru þeir komnir áfram en ef Hamar/Selfoss hefur sigur þarf oddaleik til að skera úr um hvort liðið kemst í undanúrslit.

 

Hamar/Selfoss stóð sig vel á erfiðum útivelli í kvöld og leiðinlegt fyrir þá að mistök á borð við þau sem þjálfarinn gerði skyldi kosta þá leikinn. Annað atvik átti sér stað þegar Njarðvíkingar höfðu lokið vítahrynu sinni eftir tæknivítið sem dæmt var á Pétur og ásetningsvillu sem dæmd var á Lárus Jónsson. Njarðvíkingar tóku innkast á miðjunni og ljóst að sigurinn var þeirra en gestirnir stóðu með þjálfara sínum við varamannabekkinn og horfu á Njarðvíkinga taka inn boltann og höfðust ekkert við meir í leiknum. Fyrir vikið uppskáru leikmenn Hamars/Selfoss mikið baul í Njarðvíkurstúkunni og þrátt fyrir að leiktíminn hefði runnið út hættu áhangendur Njarðvíkinga ekki að baula á gestina fyrr en skömmu eftir lokaflaut leiksins. Leiðinda endir á fremur leiðinlegum leik. Víst er að næsta viðureign liðanna getur ekkert annað en skánað og er það tilhlökkunarefni fyrir aðdáendur liðanna.

 

Stigahæstur í liði Njarðvíkinga í kvöld var Brenton Birmingham með 23 stig en George Byrd gerði 19 stig í liði Hamars/Selfoss.

 

Tölfræði leiksins

 

www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -