spot_img
HomeFréttirTiffany verður áfram hjá Grindavík

Tiffany verður áfram hjá Grindavík

10:45
{mosimage}

 

(Tiffany Roberson í leik með Grindavík gegn KR í Röstinni á síðasta tímabili) 

 

Pétur Rúrik Guðmundsson nýráðinn þjálfari Grindavíkur í Iceland Express deild kvenna tjáði Karfan.is að liðið myndi tefla fram Tiffany Roberson á næstu leiktíð. Þetta eru gleðitíðindi fyrir Grindvíkinga en Roberson var einn sterkasti leikmaður deildarinnar í fyrra með 25,7 stig að meðaltali í leik. Pétur verður áfram aðstoðarþjálfari karlaliðs Grindavíkur en honum sjálfum til aðstoðar með kvennaliðið verða þau Sandra Dögg Guðlaugsdóttir og Damon Bailey.

 

,,Við gerum ráð fyrir því að Tiffany komi til okkar í byrjun september og við ætlum okkur að vera með einn erlendan leikmann á næstu leiktíð. Við ætlum að leyfa ungu stelpunum að spila meira og gefa þeim tækifæri til að sýna hvað í þeim býr,” sagði Pétur en þetta þýðir að bakvörðurinn snjalli Joanna Skiba snýr ekki aftur í Röstina. Skiba gerði 18,3 stig að meðaltali í leik á síðustu leiktíð. ,,Þarna missum við auðvitað góðan leikmann en ég tel að liðið verði ekki lakari þegar upp er staðið. Uppistaðan í liðinu eru reynsluboltar og ungar stúlkur sem eru að reyna að sanna sig og það er alltaf góð samsetning til að ná árangri. Stelpurnar í liðinu eru með þannig hugarfar að þær eru alltaf að reyna að gera betur og með það hugarfar að vopni munum við ná að byggja upp gott lið,” sagði Pétur en Grindvíkingar byrjuðu að æfa af fullum krafti í júlí.

 

,,Það var svona til að fá stelpurnar í gang og síðan byrjar alvaran á fullu strax eftir Verzlunarmannahelgi. Við erum með þrjár stelpur í landsliðinu og mun það auðvitað hafa einhver áhrif á okkar undirbúning eins og hjá öðrum liðum sem eru í þessari stöðu. Við gerum ráð fyrir að fara í æfingaferð í september innanlands og er það liður í að þjappa hópnum saman fyrir komandi átök,” sagði Pétur sem kvaðst spenntur fyrir komandi leiktíð.

,,Ég hlakka mikið til tímabilsins og það verður fróðlegt að sjá hvernig nýja fyrirkomulagið í Iceland Express deildinni mun koma út í ár. Við gerum einnig ráð fyrir því að halda sama hópnum og í fyrra af íslenskum leikmönnum og bætum við okkur fleiri stúlkum úr Gríndavík í æfingahópinn og síðan gæti verið að gamlir Grindvíkingar snúi aftur til okkar,” sagði Pétur sposkur og gaf ekki upp hverjir það gætu verið.  

,,Varðandi aðstoðarþjálfara stöðuna hjá Meistaraflokk karla, þá mun ég áfram sinnahenni. Ég og Frikki (Friðrik Ragnarsson) höfum náð vel saman og mér finnst gaman að vinna með honum og strákunum. Þetta mun ekki bitna á þjálfun kvennaliðsins þar sem að þær ganga alltaf fyrir. Enda er ekkert að stangast á í þessu nema leikir og undirbúningur fyrir leiki og Frikki er fullfær um að klára það,” sagði Pétur í léttum tón að lokum. 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -