Ekki náði leikur FSu og Tindastóls alveg hæstu hæðum í Iðu á Selfossi í kvöld þegar liðin mættust í Iceland Express deild karla. Eiginlega allir í húsinu virtust staðráðnir í því fyrir fram að gestirnir ættu að vinna, leikmenn beggja liða og þeir áhorfendur sem ómökuðu sig. Fimm minniboltastrákar á fremsta bekk, með trommu sem þeir börðu af skyldurækni, studdu sitt lið allt til loka. Þegar líða tók á leikinn heyrðist frá einum þeirra, í heimspekilegum tón: „Af hverju töpum við alltaf?“ Hinir áttu engin svör við því. Stöku roka barst frá fjórum Skagfirðingum hinum megin í stúkunni.
Leiknum lauk með 26 stiga sigri Tindastóls, 73-99, ef ég man rétt. Í fyllstu hreinskilni þá voru bæði liðin arfaslök. Ekki dettur mér í hug eina sekúndu að hægt sé að dæma um getu gestanna út frá þessum leik. Isom hélt sig til hlés, stjórnaði leiknum vel en lagði augljóslega áherslu á það að láta ljós sitt ekki skína skærast. Eini leikmaðurinn sem var með kveikt á perunum var Friðrik Hreinsson, en hann klikkaði bara í einu skoti í leiknum og kallaði fram fyrrnefndar rokur í stúkunni. Kalli var duglegur að rúlla liðinu.
Hjá FSu voru Alex Zimniaks og Chris Caird nokkuð góðir og virtust fá bjargráð tiltæk gegn þeim. Litlu strákarnir voru ekki jafn einbeittir og ég hef séð þá áður, sjálfsagt allir að bíða eftir að þessari þrautagöngu ljúki , svo hægt verði að safna liði og byrja upp á nýtt í 1. deildinni. Auðvitað söknuðu heimamenn hins frábæra bakvarðar, Williams, en hann var sendur heim um daginn þar sem liðið var þegar fallið. Með hann innanborðs hefði þetta kannski orðið leikur?
Jón Bender og Eggert Aðalsteinsson voru með flauturnar en notuðu þær blessunarlega lítið, þannig að þetta gekk nokkuð hratt fyrir sig.
Ljósmynd/ Karl og lærisveinar í Tindastól náðu í tvö dýrmæt stig á Selfossi í kvöld.
Umfjöllun: Gylfi Þorkelsson



