KR-ingar hafa ekki spilað körfuboltaleik síðan einhvern tímann um miðjan síðasta mánuð en í kvöld var loksins komið að því. Á meðan röndóttir hafa verið að sleikja röðulinn á vordægrum síðustu vikur voru gestirnir úr Njarðvík í harkalegri þrjóskukeppni við Garðbæinga. Hvort náðugir dagar deildarmeistaranna hefðu góð eða slæm áhrif gegn gírugum gestunum var því skemmtilegt spurningarmerki fyrir leikinn.
Eins og kannski búast mátti við var ekkert ókeypis í þessum leik og góður varnarleikur í fyrirrúmi. Craion fékk fljótt tvær villur og var tekinn útaf en aftur á móti var helsta sóknarvopn gestanna við frostmark til að byrja með. Snorri kom inn fyrir Craion og gerði vel, setti 7 stig og KR með 18-15 forystu eftir fyrsta leihluta.
Heimamenn byrjuðu annan leikhluta betur og einkum Helgi og Craion komu KR í 27-23. Þá tók við svakalegur kafli gestanna með Hauk í broddi fylkingar sem snöggþiðnaði og setti m.a. 2 þrista. Staðan 29-37 og tímabært fyrir heimamenn að taka niður sólgeraugun. Brilli lagaði stöðuna í 32-39 fyrir hálfleik.
Haukur byrjaði seinni hálfleikinn með einum þristi til viðbótar og Oddur fylgdi í kjölfarið, staðan 32-45 og vafalaust hefur farið dulítið um KR-inga á þessum tímapunkti. Þarna voru 8 mínútur eftir af leikhlutanum og tók þá við einhver undarlegasti kafli sem undirritaður hefur séð í körfubolta. Hann hófst á því að Darri setti kærkominn þrist fyrir heimamenn, sem er svo sem ekki undarlegt enda alvöru kappi þar á ferð – en Njarðvíkingar hins vegar skoruðu ekki EITT EINASTA STIG það sem eftir lifði leikhlutans! Það var varla að þeir kæmu skoti á körfuna og að hluta til úrslitakeppnisvörn KR-inga að þakka/kenna sem ekkert lið vill lenda í. Þrátt fyrir ótrúlega þurrkatíð í sókn Njarðvíkinga voru þeir samt yfir, 44-45, eftir leikhlutann!

Atkinson skoraði loksins 2 stig af línunni í upphafi fjórða leikhluta fyrir gestina. Eftir frábæran stolinn bolta, körfu, villu og víti frá Craion komu heimamenn sér loks yfir aftur, 49-47. Eftir það gerðist nánast ekki neitt mínútum saman! Njarðvíkingar voru mest í því að missa boltann en heimamenn að klúðra skotum. Þegar 50 sekúndur voru eftir setti Oddur stóran þrist og var þá staðan 53-51. Haukur jafnaði svo leikinn í næstu sókn með glæsilegu stökkskoti. 53-53 og framlenging eftir þennan úrslitakeppnis 9-8 leikhluta!
Það voru stóru strákarnir sem gerðu sig gildandi í framlengingunni. Helgi og Haukur skiptust á þristum, Craion og Atkinson skiluðu svo stigum. Craion hefði að vísu getað gert út um þetta með því að nýta víti í framlengunni en hann hefur svo sem aldrei verið sérstakur aðdáandi vítalínunnar. Brilli ,,clutch“ er hins vegar stærri en allir fyrrnefndir og setti svaðalegan þrist þegar um 50 sekúndur lifðu leiks! Haukur hafði hins vegar ekki í hyggju að gefast upp og jafnaði aftur í 62-62 á lokasekúndunum!
Haukur byrjaði framlenginu tvö með þristi og vildi fara að klára þetta. Craion og Helgu svöruðu hins vegar að bragði. Þarna var spennan hreinlega farinn að þagga niður í kjaftfullri DHL-höllinni! Mistök eftir mistök og þreytumerki farin að sjást. Magic klúðraði boltanum svo loks ofan í en Craion, hver annar, svaraði. Þá loksins kom að endapunkti í leiknum, Atkinson fékk dæmda á sig sóknarvillu þegar 12 sekúndur lifðu leiks – umdeildur dómur e.t.v – kannski ekki villa upp á mikið meira en einn dollara en undirritaður ætlar ekki að dæma um það. Haukur Helgi fékk enn og aftur um 10 sekúndur til að svara í stöðunni 69-67 en brást bogalistinn og missti boltann – sem var kannski eins gott því undirritaður tók ekki rafmagnssnúruna fyrir tölvuna með á leikinn!
Craion var langatkvæðamestur KR-inga með 27 stig og 16 fráköst. Hjá Njarðvík var Haukur Helgi með 26 stig og 15 fráköst og Atkinson með 20 stig og 24 fráköst.
Annars má segja að skotnýting liðanna, og kannski sóknarleikurinn yfir höfuð, hafi verið hreinasta hörmung en það skiptir bara engu máli í svona leik. Það er bara sigurinn sem skiptir máli – 69-67 baráttusigur heimamanna staðreynd. Þvílíkur leikur og þvílík fyrirheit gefin fyrir þessa seríu! Körfubolti, móðir allra íþrótta!
Umfjöllun – Kári Viðarsson



