Þrír af lykilmönnum Grindavíkurliðsins í Iceland Express deild karla glíma nú við meiðsli en það aftraði gulum ekki frá því að taka Tindastól í kennslustund í gærkvöldi. Í fyrri hálfleik meiddist Þorleifur Ólafsson á hásin og lék ekki meira með í leiknum. Karfan.is ræddi við Friðrik Ragnarsson þjálfara Grindavíkur um meiðslalistann langa í Röstinni en hann sagði að ekki væru uppi áform um að kalla inn hjálp að svo búnu máli.
,,Ég veit ekki hversu mikið Þorleifur meiddist en eitthvað meiddist hann. Þorleifur var að bakka aftur í vörn þegar hann steig eitthvað vitlaust í fótinn og ég veit ekki hversu lengi hann verður frá,“ sagði Friðrik en Grindvíkingar léku án Brentons Birmingham og Arnars Freys Jónssonar en báðir leikmenn glíma við meiðsli.
,,Það er sprunga í öðru ristarbeini Arnars og mér sýnist þetta verða eitthvert 5-6 vikna mál en hann hefur þegar verið frá í 3 vikur. Brenton er að glíma við nára meiðsli og meiðsli aftan í læri líka og það er eitthvað í hann,“ sagði Friðrik og bætti við að ekki væri verið að skoða þann möguleika að bæta við hópinn í formi erlends leikmanns.
,,Við sjáum bara hvernig Þorleifi reiðir af og ég vona að þetta verði ekki langur tími og að ég nái að tjasla saman mínu liði fyrir bikarleikinn gegn Tindastól um helgina,“ sagði Friðrik en er með þessu móti komin einhver pressa á kappa eins og Helga Jónas Guðfinnsson að snúa til baka og hjálpa liðinu í neyð?
,,Helgi er orðinn saddur og búinn með sitt í þessu en samt er alltaf verið að suða í honum,“ sagði Friðrik og kvaðst ætla að bíða átekta og sjá hvernig hans mönnum gengi í að koma sér aftur á ról úr meiðslum.
Ljósmynd/ Enn er nokkur bið á því að Arnar Freyr Jónsson láti til sín taka á parketinu.



