spot_img
HomeFréttirThunder svara fyrir sig og minnka muninn í 2-1

Thunder svara fyrir sig og minnka muninn í 2-1

Serge Ibaka fékk leyfi frá læknum Thunder liðsins til að taka þátt í leik 3 og var hent strax inn í byrjunarliðið. Það stóð ekki á áhrifunum. Allt annað lið mætti til leiks. 
 
Ibaka byrjaði á því að setja niður hvert skotið af fætur öðru og var kominn í 4/4 í skotum og búinn að blokka 3 skot strax í upphafi leiks. Teigurinn var ekki lengur eign San Antonio líkt og hafði verið í fyrstu tveimur leikjunum. Áhrifin voru ótvíræð. Byrjunarlið Spurs skaut 20/56 í leiknum og liðið allt var 39,6%. Spurs skoruðu “aðeins” 100 stig per 100 sóknir en í fyrri tveimur leikjunum höfðu þeir skorað vel yfir 120.
 
Svo virðist sem skipulag Spurs hafi, aldrei þessu vant, riðslast og farið um þúfur. Seint í síðari hálfleik voru menn farnir að skjóta ótímabærum skotum og Danny Green, sem hittir best þegar hann fær boltann í sinni stöðu, var farinn að reyna að búa til eitthvað sjálfur.
 
Hjá Thunder gekk allt að óskum. Teigurinn var lokaður af Ibaka og hægt var að spila stífari vörn á leikmenn Spurs úti á vængnum. Ibaka setti einnig niður skotin sín að utan sem teygði vel á vörninni og gerði öðrum leikmönnum kleift að keyra inn í teiginn án vandræða.
 
Scott Brooks setti loksins Reggie Jackson í byrjunarliðið og sá svaraði kallinu með því að skora 15 stig og gefa 5 stoðsendingar. Thabo Sefolosha hins vegar spilaði ekki eina mínútu. Brooks vakti mikla furðu undirritaðs með að hafa Ibaka svona lengi inni á vellinum í fjórða hluta þegar Popovich var löngu búinn að henda inn handklæðinu og öllum bekknum inn á völlinn. Það var ekki fyrr en Kevin Durant gekk að Brooks og sagði honum að skipta honum út af, sem hann fékk skiptinguna og áhorfendur stóðu upp fyrir honum. Stórfurðuleg ákvörðunarfælni hjá þessum annars stórgóða þjálfara.
 
Durant og Westbrook skoruðu 25 og 26 stig en hjá Spurs var það Manu Ginobili sem hélt lífi í sínum mönnum með 23 stig af bekknum. 
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -