spot_img
HomeFréttirÞú getur ekki haldið með tveimur liðum, fávitinn þinn!

Þú getur ekki haldið með tveimur liðum, fávitinn þinn!

Ég er í tvíburamerkinu og ég hef gaman af því að pæla í þeim fræðum; finnst svo margt passa, ganga upp. Allavega hvað mig varðar. Svo elska ég íþróttir og þá sérstaklega körfubolta, en líka handbolta og fótbolta. Og ég á óvenjulega sögu í þessum efnum.

Sagt er um fólk í tvíburamerkinu að það þurfi fjölbreytni til að viðhalda lífsorku sinni; að best líði Tvíburanum þegar mikið er um að vera; hann hafi þörf til að sinna mörgum verkefnum á samtímis; leiðist rútína og þreytist ef hann þarf að fást of lengi við það sama. Þá er sagt að Tvíburinn þurfi fjölbreytni og að hreyfing sé honum nauðsyn. Tvíburinn þarf að skipta reglulega um umhverfi, enda er vinsælasta setningin hjá tvíburum:

“Ég þarf að skreppa aðeins.”

Svo virðist sem Tvíburinn geymi tvo persónuleika: Gjarnan talað um tvíeðli þeirra og kemur fram í fjölhæfni og þörf fyrir fjölbreytni og Tvíburinn getur sýnt tvö andlit, eftir umhverfi og aðstæðum. Ég tengi við þetta allt. Sérstaklega í tengslum við íþróttir.

Eina félagið sem ég hef æft með og keppt fyrir er FH, bæði í handbolta og fótbolta, frá því að ég var gutti og fram á seinni hluta unglingsáranna. Mig langaði að æfa körfubolta líka en það var ekki hægt; æfingatímar hefðu skarast á og svo var bara ekki til meiri aur heima til að bæta þriðju greininni við.

Jólin 1979

En ég elskaði körfubolta og geri það enn; ef eitthvað er hefur ást mín á sportinu orðið heitari með árunum.

Ástæðan fyrir því að ég valdi að æfa handbolta og fótbolta með FH var einföld; ég kom úr Öldutúnsskóla í Víðistaðaskóla þegar fyrsti bekkur var um það hálfnaður, rétt eftir áramótin 1977-78. Í Öldutúnsskóla voru Haukarnir nokkuð áberandi og úr þeim skóla (og Haukum, auðvitað) hafa komið margir góðir körfuboltaleikmenn. Ég var í „Haukabekk“ en þegar ég fór í Víðistaðaskóla lenti ég í „FH-bekk“ og engin leið til baka. Í FH var ég kominn og átti skemmtilegan tíma þar í handbolta og fótbolta í mörg ár.

En ég var alltaf að „æfa“ körfu; í öllum frímínútum og þar fram eftir götunum. Og það besta var að það var ekkert mál að fara einn í körfu – spila á móti ímynduðum andstæðing en best var auðvitað ef það voru fleiri á svæðinu, sem var oft, og skipt í lið. Bara gaman.

Þá aftur að tvíburaeðlinu, eða eigum við að segja þríburaeðlinu? Liðin mín á Íslandi eru nefnilega ekki tvö, heldur þrjú. Já, þrjú.

FH í handbolta og fótbolta en í körfunni eru það KR og Haukar; þetta er skrýtinn kokteill, en mér líkar hann.

Ég var í FH í handbolta og fótbolta, en bræður mínir þrír, Snorri, Jón og Gísli æfðu allir körfu með Haukum, og það hefði ég einnig farið að gera, hefði ég ekki flutt í annað hverfi og lent í „FH-bekk“ þar sem í boði var svarthvítur handbolti og fótbolti.

Jón, Guðrún, ég og mamma

En af hverju KR hjá kornungum Hafnfirðingi?

Jú, mágur minn til rúmlega tveggja áratuga, Jón Sigurðsson, var um langt árabil besti körfuboltamaður Íslands; hann hóf sinn feril í meistaraflokki með Ármanni og vann allt með því félagi sem hægt er að vinna hér á landi. Djöfull var hann langbestur. En hann skipti yfir í KR og vann líka allt með þeim sem hægt er að vinna hér á landi og var lengi landsliðsfyrirliði. Það var á sama tíma og ég skipti um skóla að Jón mágur skipti um lið, 1977-78. Ég leit upp til Jóns og geri enn, og ég og sonur Jóns og Höllu systur minnar, Sigurður heitinn, og dóttir þeirra, Guðrún, fengum stundum að fljóta með á æfingar og á flesta leiki. Áfram KR og áfram Jón!

Sigurður fer upp í sniðskot

Í Hafnarfirði á þessum tíma voru Haukar í körfubolta hálfgert firmalið og það var ekki fyrr en vorið 1983 sem þeir komust upp í úrvalsdeild í fyrsta skipti. Þá hafði ég verið KR-ingur í körfubolta í nokkur ár og gat ekki né vildi snúa baki við félaginu. Maður gerir ekki svoleiðis. En samt hafði ég miklar taugar til Hauka í körfunni vegna bræðra minna, og auðvitað FH líka, sjálfs míns vegna, en í öðrum greinum þó.

Því var ég svellkaldur FH-ingur, KR-ingur og Haukari! Ekki tvíburi, frekar þríburi.

Íslandsmeistarar KR 1979

Svona er saga mín í þessum efnum og ég fékk af og til smá skot vegna þessa og man vel eftir því að þegar Haukar og KR áttust við árið 1984 í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði; ég var KR megin og í hálfleik kom að mér einn skólafélagi minn – árinu eldri – og spurði af hverju ég væri ekki Hauka megin. Ég sagði honum að ég hefði vissulega taugar til Hauka en KR væri mitt lið, svona aðeins meira, en í raun héldi ég í þessu tilviki með báðum liðum og gæti því ekki tapað. Skólafélagi minn var drullufúll út í mig og hreytti þessum orðum í mig:

„Þú getur ekki haldið með tveimur liðum, fávitinn þinn!“

Ég sagði við hann: „Ég held ekki með tveimur liðum, heldur þremur.“

Fréttir
- Auglýsing -