spot_img
HomeFréttirÞriggja liða deildin á botninum

Þriggja liða deildin á botninum

ÍR, Fjölnir og Skallagrímur hafa lengst af seinni hluta Dominosdeildar karla þessa leiktíðina háð harða baráttu um 10. sætið og rétt til áframhaldandi dvalar í úrvalsdeild. Gátan um hver sleppi við öxina í lok deildarkeppninnar gæti ráðist annað kvöld þegar ÍR mætir Skallagrími í Hertz hellinum.
 
Aðeins tvær umferðir eru eftir af Dominosdeild karla þennan veturinn. Í botnbaráttunni eru það Fjölnir sem sækja Grindavík heim í Röstina í kvöld og ef við gefum okkur að heimasigur verði raunin þar (þar sem Fjölnir eru 1-9 á útivelli) verða Fjölnir með 5 sigra og 16 töp.
 
ÍR tekur á móti Skallagrími annað kvöld í sannkölluðum botnbaráttuslag þar sem ÍR getur nánast gulltryggt sig uppi í úrvalsdeild á næstu leiktíð með sigri á Sköllunum. Skallagrímur getur hins vegar flækt hlutina umtalsvert með sigri í Hertz hellinum og jafnað öll liðin að stigum. 
 
Reglurnar um uppröðun liða á töflunni sem hafa jafnmörg stig eru á þessa leið eftir því sem undirrituðum tókst að afla sér fyrir birtingu þessa pistils:
 
1) Stigafjöldi liða
2) Innbyrðisviðureignir þeirra liða sem eru með jafnmörg stig.
3) Hvaða lið sigruðu fleiri leiki innbyrðis en hin jöfnu liðin.
4) Séu sigrarnir jafnmargir, er það heildarstigamunur í viðureignum þessarra liða sem gildir.
5) Sé stigamunur innbyrðisviðureigna svo jafn milli einhverra jöfnu liðanna þarf að endurtaka þrep 3 og 4 þeirra í milli þar til endanleg uppröðun fæst.
 
Innbyrðisbarátta þessara þriggja liða er þannig að ÍR hefur sigrað báða leikina gegn Fjölni, Fjölnir hefur sigrað báða leikina gegn Skallagrími og hefur Skallagrímur yfirhöndina gegn ÍR eftir sigur í fyrri leik líðanna fyrir áramót.
 
Það er því ljóst að sigri Skallagrímur ÍR, verða liðin ekki bara jöfn að stigum heldur einnig í innbyrðisviðureignum sínum – öll með 2 sigra undir beltinu. 
 
Þá veltur þetta allt á með hve mörgum stigum Skallagrímur sigrar ÍR. Nettóstigamunur í viðureignum allra þessara liða innbyrðis í dag er svona:
 
– ÍR og Skallagrímur eru 8 stigum Skallagrími í hag (og þá -8 fyrir ÍR).
– ÍR og Fjölnir eru 11 ÍR í hag (og þá -11 fyrir Fjölnir).
– Fjölnir og Skallagrímur eru 13 stigum Fjölni í hag (og þá -13 fyrir Skallagrím).
 
Að því sögðu verður staðan þannig með þann stigamun sem taflan segir, Skallagrími í hag:
 
 
Skallagrímur þarf því að sigra með 8 stiga mun til að stinga sér fram fyrir hin tvö liðin og halda sér uppi. ÍR má ekki tapa með meira en 1 stigi til að halda sér uppi. Fjölnir hins vegar verður að treysta á 2 til 7 stiga sigur Skallagríms til að komast upp.
 
Eftir þetta er samt ein umferð eftir þar sem Skallagrímur tekur á móti Tindastóli í Borgarnesi, Fjölnir tekur á móti KR í Dalhúsum og ÍR fer í heimsókn til Stjörnunnar í Garðabæ. Það er því ekkert neglt í stein eftir þennan leik ÍR og Skallagríms, en tapi öll liðin síðustu leikjum sínum í deildinni mun útkoma hans ráða örlögum þessarra liða.
 
Mynd:  Það mun mikið mæða á þessum tveim annað kvöld. (Ómar Örn)
Fréttir
- Auglýsing -