spot_img
HomeFréttirÞríframlengt hjá Oklahoma og Grizzlies: Miami leiðir 3-1 gegn Boston

Þríframlengt hjá Oklahoma og Grizzlies: Miami leiðir 3-1 gegn Boston

 
Háspenna lífshætta í NBA deildinni í nótt, þríframlengja þurfti viðureign Oklahoma City Thunder og Memphis Grizzlies þar sem Oklahoma hafði betur að lokum og jafnaði einvígið 2-2. Þá þurfti að framlengja fjórða leik Boston og Miami þar sem Miami stóðst prófið og leiðir nú 3-1.
Memphis Grizzlies 123 – 133 Oklahoma City Thunder
Oklahoma 2-2 Grizzlies
Mike Conley kom leiknum í framlengingu fyrir Grizzlies með þrist þegar um þrjár sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma, framlengt í stöðunni 96-96. Greiviz Vasquez jafnaði svo aftur fyrir Grizzlies undir lok fyrstu framlengingar með erfiðum þrist og staðan 109-109 þegar framlengja þurfti öðru sinni. Í stöðunni 119-119 braust Russell Westbrook upp völlinn og fékk fínt skot uppi á lyklinum hægra megin en það geigaði og framlengt í þriðja sinn! Í þriðju framlengingunni tók Kevin Durant smá rispu og Oklahoma var töluvert betra, vann þessar fimm mínútur 4-14 og jöfnuðu því einvígið 2-2.
Zach Randolph var með 34 stig og 16 fráköst hjá Grizzlies og Marc Gasol bætti við 26 stigum og 21 frákasti. Hjá Thunder var Russell Westbrook með 40 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Kevin Durant bætti við 35 stigum og 13 fráköstum.
Fimmti leikur liðanna fer fram á heimavelli Oklahoma aðfararnótt fimmtudags.
 
Boston Celtics 90 – 98 Miami Heat
Miami 3-1 Boston
Þrenningin hjá Miami gerði öll nema 15 stig liðsins! LeBron James var atkvæðamestur með 35 stig og 14 fráköst, Dwyane Wade bætti við 28 stigum og 9 fráköstum og Chirs Bosh var með 20 stig og 12 fráköst. Hjá Boston Celtics var Paul Pierce með 27 stig og 8 fráköst og Ray Allen gerði 17 stig. Næsti leikur liðanna fer fram í Miami þar sem Heat geta með sigri komist í úrslit Austurstrandarinnar.
 
Mynd/ Russell Westbrook fór mikinn í liði Thunder í nótt með 40 stig.
 
Fréttir
- Auglýsing -