Tveir stórleikir fara fram í kvöld en þá mætast KR og Njarðvík í sínum þriðja undanúrslitaleik í Domino´s-deild karla þar sem staðan er 1-1. KR hafði öruggan sigur í fyrsta leiknum en Njarðvík jafnaði metin í Ljónagryfjunni eftir magnaða lokakörfu hjá Stefan Bonneau.
Þá mætast Hamar og FSu í Iðu í kvöld en þetta er önnur úrslitaviðureign liðanna um laust sæti í Domino´s-deild karla. Staðan í einvíginu er 1-0 fyrir Hamri sem hafði sterkan sigur í fyrsta leik í Frystikistunni. Vinni Hamar í kvöld eru þeir komnir í úrvalsdeild á ný en takist FSu að landa sigri verður oddaleikur í Frystikistunni.
Báðir leikirnir hefjast kl. 19:15 en leikur KR og Njarðvíkur fer fram í DHL-Höllinni og FSu og Hamar mætast í Iðu á Selfossi.
Í 2. deild karla mætast Íþróttafélag Breiðholts og Ármann í undanúrslitaleik kl. 18:00 í Hertz-Hellinum. Það lið sem vinnur tryggir sér miðann í úrslitaleik gegn Reyni Sandgerði og jafnframt sæti í 1. deild karla á næsta tímabili.



