Keflavík og Snæfell mætast í sínum þriðja úrslitaleik í dag í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ og hefst leikurinn kl. 16:00. Staðan í einvíginu eru jöfn, 1-1, þar sem liðin hafa unnið sinn hvorn heimasigurinn. Það vantar ekki dramatíkina og flækjurnar í einvígið en þegar þetta er ritað er enn óvíst hvort Nick Bradford fylli skarð Draelon Burns í liði Keflavíkur.
Eins og kom fram hér á Karfan.is í gærdag hefur Draelon Burns verið að glíma við meiðsli og sagði Guðjón Skúlason þjálfari Keflavíkur að ákveðið yrði í dag hvort Nick Bradford myndi taka við af Burns. Bradford er kominn með félagaskipti til Keflavíkur frá Njarðvík og er í þeirri einstöku aðstöðu að verða mögulega Íslandsmeistari með liði sem sló hann út í undanúrslitum. Að þessu sögðu þarf engan eldflaugasérfræðing til þess að átta sig á að netheimar loguðu og bloggtwitterfésbókarmeistarar landsins með snert af áhuga fyrir körfuknattleik fóru mikinn enda í banastuði á lyklaborðinu eftir dramatíska innkomu Jeb Ivey í lið Snæfells.
Þá sagði Svali Björgvinsson í viðtali við Karfan.is í gær að Rannsóknarnefnd Alþingis ætti að taka málið fyrir og að eldgosin hérlendis væru orðin eins og barnaafmæli í samanburði við úrslitaseríuna sem er í gangi.
Hvað sem raular og tautar fer þriðji leikurinn fram í dag og verður fróðlegt að sjá hvort Burns eða Bradford mæti í Keflavíkurbúning. Staðan er 1-1 en þrjá sigra þarf til þess að verða Íslandsmeistari. Liðin hafa nú skipst á því að rassskella hvert annað og komin krafa á bæði lið að bjóða upp á spennandi leik sem ekki verður lokið fyrr en eftir fullar 40 mínútur.
Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en Karfan.is mun einnig færa reglulegar fréttir á gangi mála.
Keflavík-Snæfell
Leikur 3
Toyota-höllin í Reykjanesbæ
Kl. 16:00 í dag
Fjölmennum á völlinn
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziesjki: Hörður Axel sækir að Hlyni Bæringssyni í öðrum leiknum í Stykkishólmi. Mikið mun mæða á þessum tveimur sterku leikmönnum í dag.
[email protected]
[email protected]



