Í kvöld fer fram þriðja úrslitaviðureign Keflavíkur og KR í Domino´s deild kvenna en staðan í einvíginu er 1-1. KR jafnaði rimmuna í síðasta leik í DHL Höllinni þar sem Sigrún Sjöfn Ámundadóttir snögghitnaði í síðari hálfleik og leiddi KR til sigurs.
Til þess að KR verði Íslandsmeistari þarf liðið að vinna leik í Toyota-höllinni, það hefur röndóttum ekki tekist alla leiktíðina! Keflavík er með heimaleikjaréttinn svo ef það kemur t.d. til oddaleiks í einvíginu þá mun hann fara fram í Toyota-höllinni.
Leikurinn verður í beinni netútsendingu hjá Sport TV, beinni tölfræðilýsingu hjá kki.is og þá mun karfan.is að sjálfsögðu fylgjast grannt með gangi mála í bæði máli og myndum.
Leikur kvöldsins hefst venju samkvæmt kl. 19:15 og ætla Keflvíkingar að kynda undir grillunum kl. 17:30 þar sem hægt verður að næla sér í brakandi ferskan borgara og meðlæti.
Mynd/ Heiða: Ingunn Embla Kristínardóttir sækir að Rannveigu Ólafsdóttur í öðrum leik liðanna í DHL Höllinni.



