spot_img
HomeFréttirÞriðja tap Íslandsmeistaranna í röð

Þriðja tap Íslandsmeistaranna í röð

Tindastóll tók á móti Grindavík í Subway deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Fyrri leik liðanna í haust hafði lokið með sigri Stóla í Grindavík eftir framlengingu og því mátti búast við spennandi leik

Stólar byrjuðu betur á heimavelli og voru fljótlega komnir með 10 stiga forystu sem hélst út fyrsta leikhlutann og Valur Orri setti þrist til að halda þeim mun á lokasekúndunni, 30-20 fyrir heimamenn. Barningurinn hélt áfram í öðrum leikhluta en Tindastóll hélt muninum og bætti aðeins í og leiddu með 12 stigum í hálfleik 54-42. Deandre Kane setti þrist í lokasókn gestanna til að laga stöðuna og ljóst að Grindvíkingar myndu selja sig dýrt.

Stólar héldu áfram að leika sinn leik og náðu að halda gestunum frá sér þriðja leikhlutann og vel inn í þann fjórða. Tóti kom heimamönnum í 15 stiga forystu með þrist þegar 5 og hálf mínúta var eftir en þá var eins og slokknaði algerlega á Stólum sóknarlega og gestirnir gengu á lagið. Grindavík skellti í 17-2 kafla á síðustu 5 mínútunum og náðu að koma leiknum í framlengingu þar sem þeir reyndust sterkari og lönduðu öflugum 96-101 sigri gegn ráðlausum heimamönnum sem virðast ekki geta keypt sér sigur eftir að allir leikmenn skiluðu sér úr meiðslum

Hjá gestunum var það Deandre Kane sem leiddi vagninn með 27 stig og 11 fráköst. Óli Óla bætti 19 stigum í sarpinn og Basile var öflugur á lokamínútunum. Heimamenn í Tindastól litu vel út fyrstu 35 mínúturnar en eins og á móti Keflavík í síðasta leik var eitthvað sem gaf sig á lokakaflanum og þeir leyfðu gestunum að sigla sig í kaf. Liðið virkaði andlaust á lokakaflanum og eins og þeir væru bara að bíða eftir að leikurinn kláraðist. Calloway vara öflugastur með 24 stig og 11 fráköst en hann er enginn leiðtogi þegar liðið missir hausinn eins og gerðist í kvöld, þá þurfa aðrir að stíga upp.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun / Hjalti Árna

Viðtöl / Sigurður Ingi

Fréttir
- Auglýsing -