Pavel Ermolinskij landaði fyrstu þrennu vetrarins í leik KR og Grindavíkur um meistara meistaranna í gær. KR sigraði Grindavík örugglega 105-81.
Pavel skoraði 15 stig, tók 10 fráköst og gaf 12 stoðsendingar í leiknum. Tíunda frákastið lét bíða eftir sér þar sem Pavel fór út af velli þegar þriðji hluti var hálfnaður með 9 fráköst á blaði. Hann kom hins vegar aftur inn á snemma í fjórða hluta og greip það tíunda eftir misheppnaða skottilraun frá Jóhanni Árna Ólafssyni hjá Grindavík þegar rúmlega þrjár mínútur voru til leiksloka.
Enginn annar hefur skilað þrennunni eftirsóttu það sem af er vetri en Emil Barja hjá Haukum var mjög nálægt því — ÞRISVAR — í Lengjubikarnum. Emil var með 11 stig, 13 fráköst og 9 stoðsendingar gegn Val, 12 stig; 10 fráköst og 8 stoðsendingar gegn Fjölni og 18 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar í undanúrslitunum gegn KR. Eitthvað segir manni að það sé ekki langt í þá fyrstu hjá Emil í vetur.
05/10/2014 – Pavel Ermolinskij, KR – 15 stig, 10 fráköst og 12 stoðsendingar – Sigur



