"Ahhh here comes Iceland, nobody´s gonna win" Þessi fleygu orð voru látin falla þegar íslensku strákarnir í körfuknattleiksliði slökkviliðs- og lögreglumanna gengu inn í George Mason Fieldhouse þar sem 3 á 3 keppni heimsleikana fór fram. Fyrirfram voru Íslendingar líklegir sigurvegarar en samt voru þarna lið sem þeir höfðu ekki séð áður í bland við kunnuleg andlit frá fyrri heimsleikum.
Fyrsti leikur var á miðvikudaginn sl. en þann dag áttu þeir tvo leiki. Keppnin hófst á leik við Fairfax Fire Department. Fyrirfram var búist við erfiðum leik en þeir höfðu ekki mætt þeim áður. Ísland léku vel og náðu að stöðva þeirra aðal mann og okkar skot steinlágu. Byrjunarliðið var skipað Magna Hafsteinssyni, Hermanni Maggýjarsyni og Jóni Ólafi Jónssyni. Af bekknum komu svo Kjartan Kárason, Loftur Einarsson og Guðmundur H. Jónsson. Allir skiluðu sínu og að lokum nokkuð öruggur sigur í hús.
Um kvöldmatarleitið var svo seinni leikur dagsins. Hann var á móti lögreglumönnum frá Tenerife. Ísland spilaði við þá á síðustu leikum og sigruðum nokkuð auðveldlega en þeir höfðu greinilega farið á leikmannamarkaðinn og mættu með einn mjög sprækan sem gerði okkur erfitt fyrir. Eftir hörkuleik voru fjórir leikmenn hjá þeim komnir út af með 5 villlur, þegar 30. sek voru eftir og við með 4 stiga forystu. Leikurinn flautaður af og við með tvo sigra í lok dags.
Á fimmtudaginn voru einnig tveir leikir. Íslenska liðið hóf daginn á léttu vanmati og slakri spilamennsku framan af á móti þremur löggum frá Brasilíu. Skotin voru ekki að detta en að lokum hafðist þetta með 10 stiga mun. Brazzarnir blessaðir nýttu öll leikhlé til að endast leikinn en það mátti sjá á þeim í lokin að það var ekki mikið eftir á tanknum.
Síðasti leikurinn var svo á móti liði Policia Federal frá Mexico. Þeir hafa víst alltaf verið þekktir fyrir að spila fast og vera nokkuð duglegir og sú var raunin. Það dugði samt ekki og var spilamennska okkar manna mun betri en á móti Brössum og að lokum höfðu íslensku drengirnir öruggan sigur og þar með sigur í riðlinum. Þrátt fyrir áðurnefnda hörku þeirra Federal manna þá tókst dómara leiksins að svara „væli“ eins þeirra með „There´s contact in basketball, if you don´t like that, try ballet class.“
Leikurinn um gullið var á móti liði lögreglunnar í Hong Kong. Við höfum spilað við hluta þeirra áður og þeir vel að því komnir að vera komnir í úrslitaleikinn. Við byrjuðum mjög vel, náðum góðri forystu og vorum 10 stigum yfir í hálfleik. Hong Kong komu sterkir til leiks eftir hlé og söxuðu á forskotið. Um tíma var eins stigs munur og this guy aðeins farinn að æsa sig á bekknum. Í fjórða leikhluta var aðeins gefið í, betri vörn og sótt inn í teig þar sem ekki var hægt að stoppa okkur. Að lokum var 6 stiga sigur í höfn og þriðji heimsleikatitill okkar í höfn.
Framundan er smá fagn, 4th of July weekend og lokaathöfn heimsleikanna á sunnudag og svo flogið heim með WOW air á mánudaginn.
Góðar stundir.



