spot_img
HomeFréttirÞorvaldur Orri tryggði Njarðvík í undanúrslitin með ótrúlegum flautuþrist

Þorvaldur Orri tryggði Njarðvík í undanúrslitin með ótrúlegum flautuþrist

Njarðvík lagði Þór í oddaleik í Ljónagryfjunni í kvöld í átta liða úrslitum Subway deildar karla, 98-97. Njarðvík fer því áfram í undanúrslitin, þar sem þeir mæta deildarmeisturum Vals í fyrsta leik eftir helgi.

Heimamenn í Njarðvík byrjuðu leik dagsins betur og voru sex stigum á undan eftir fyrsta leikhluta, 34-28. Þór nær þó að halda leiknum jöfnum til loka fyrri hálfleiks, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn þrjú stig, 52-49.

Njarðvík heldur forystunni að mestu í upphafi seinni hálfleiksins og ná að fara með sex stiga forskot inn í lokaleikhlutann, 77-71. Njarðvík hefur svo áfram forystuna vel inn í fjórða leikhlutann, en þökk sé góðu áhlaupi undir lokin nær Þór að tryggja sér framlengingu, 87-87.

Í framlengingunni skiptast liðin á snöggum áhlaupum og undir lokin, með 0.9 sekúndur eftir nær Darwin Davis að setja laglegt sniðskot sem setur Þór tveimur stigum á undan, 95-97. Á hinum enda vallarins, með innan við sekúndu eftir, setur Þorvaldur Orri Árnason ótrúlegan flautuþrist langt fyrir utan þriggja stiga línuna til þess að vinna leikinn fyrir Njarðvík, 98-97.

Atkvæðamestir fyrir Njarðvík í leiknum voru Dominykas Milka með 25 stig, 12 fráköst og Dwayne Lautier-Ogunleye með 26 stig og 5 fráköst.

Fyrir Þór skilaði Darwin Davis 28 stigum, 5 fráköstum, 7 stoðsendingum og 4 stolnum boltum. Honum næstur var Jordan Semple með 27 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -