13:02
{mosimage}
Freyja Guðjónsdóttir var stigahæst Þórsstúlkna
Þórsstelpur unnu sinn fyrsta sigur í 1.deild kvenna í vetur. Þær fengu Tindastól í heimsókn og unnu nokkuð auðveldan sigur 52:41.
Þórsstelpurnar hófu leikinn af miklum krafti og náðu strax góðu forskoti 9:3. Vörnin var mjög áköf og stálu stelpurnar mörgum boltum í vörninni sem gaf auðveldar körfur úr hraðupphlaupum. Virtist á tímabili eins og Þór ætlaði strax að hrista af sér gestina. Tindastólstelpurnar voru þó ekki á því að gefast upp og minnkuðu muninn aðeins í lok fyrsta leikhluta. Staðan að honum loknum 16:11.
Þórsarar byrjuðu annan leikhlutann eins og þær hófu leikinn. Petra setti niður tvær góðar körfur og Eydís bætti við annarri og skyndilega var staðan orðin 22:11. Ekkert gekk hjá Stólunum og töpuðu þær mörgum boltum í leikhlutanum. Eina sem var með lífsmarki hjá þeim í leikhlutanum var Sigríður sem gerði öll 8 stig gestana í öðrum leikhluta. Lítið markvert gerðist í öðrum leikhlutanum og leiddu Þórsstelpur örugglega 28:19.
Líkt og í hinum tveimur leikhlutunum byrjuðu Þórsstelpurnar af miklum krafti og gerðu fyrstu 7 stigin og leiddu með 16 stiga mun, 35:19. Tindastóll kom þó með ágætis áhlaup í lok fjórðungsins og með 9:3 spretti minnkuðu þær muninn í 10 stig, 38:28.
Í loka fjórðungnum héldu Þórsstelpurnar áfram að spila hörku vörn og náðu mest 19 stiga forskota 49:30. Þá skoruðu þær nokkrar mjög auðveldar körfur úr hraðupphlaupum og virtist eins og gestirnir væru alveg búnar á því. Þjálfari Tindastóls tók þá leikhlé og vöknuðu þær þá aðeins og minnkuðu muninn áður en leikurinn var allur. Þórsstelpur fóru samt sem áður með öruggan 11 stiga sigur 52:41.
Þórsstelpurnar sýndu það strax frá upphafi að þær æltuðu sér sigur, þær skoruðu fyrstu stigin og leiddu allan leikinn og sigurinn var svo sannarlega verðskuldaður. Allar stelpurnar fengu að spreyta sig og skiluðu allar góðri varnarvinnu og baráttu sem vóg þungt í sigrinum í dag. Selma Kjartansdóttir sem var stigahæst í fyrsta leiknum var meidd og spilaði því ekki. Stelpurnar stigu upp og dreifðist stigaskorið mjög jafnt.
Bjarki Á. Oddsson þjálfari var feykiánægður með sigurinn, sinn fyrsta sigur sem þjálfari meistaraflokks.
Stig Þórs: Freydís 13, Anna 9, Rut 8, Margrét 8, Petra 6, Ragnheiður 4, Eydís 2 og Súsí 2.
Stig Tindastóls: Sigríður 18, Brynhildur 11, Dagbjört 5, Gyða 3, Aníta 2 og Kristín 2.
Mynd: Finnbogi – Dagsljós



