spot_img
HomeFréttirÞórsarar upp í 2. sæti

Þórsarar upp í 2. sæti

Þór Þorlákshöfn komst í kvöld aftur á sigurbraut á útivelli þegar liðið skellti Fjölni 93-105 í Dalhúsum. Fjölnir tapaði þar með sínum níunda deildarleik í röð og er enn á botni deildarinnar ásamt ÍR. Þórsarar komust hinsvegar upp í 2. sæti deildarinnar og verða þar þangað til a.m.k. á morgun en þá leikur Snæfell gegn Tindastól. Gestirnir úr Þorlákshöfn settust snemma við stýrið í leiknum og sigldu heim öruggum sigri þrátt fyrir nokkrar fínar tilraunir Fjölnismanna til þess að komast upp að hlið gestanna. Hrammur 1. deildar er farinn að þrengja vel utan um öndunarfæri Fjölnis og ljóst að sigur þarf að finnast sem allra fyrst ef liðið ætlar sér ekki niður um deild.
 
David Jackson átti sterkan dag í liði Þórs með 27 stig og 15 fráköst og Ben Smith sem var tiltölulega lengi í gang lauk leik með 26 stig og 5 fráköst. Hjá Fjölni var Chris Smith illur viðureignar í síðari hálfleik og lauk leik með 28 stig og 9 fráköst en Ingvaldur Magni Hafsteinsson var þó þeirra besti maður í kvöld með 23 stig og 11 fráköst og þær tíu mínútur sem hann hvíldi í leiknum virtust vera heil eilífð og léku Þórsarar aldrei betur en þegar Magni vermdi bekkinn.
 
Að finna körfuna var ekki vandamálið í fyrri hálfleik, Guðmundur Jónsson sallaði niður 10 stigum fyrir Þór og Magni Hafsteinsson 9 fyrir Fjölni í fyrsta leikhluta. Darri Hilmarsson átti lokaorðin fyrir gestina á þessum líflegu upphafsmínútum þegar hann kom Þór í 22-29 með þriggja stiga körfu en hann gerði fimm stig fyrir Þórsara í röð í lok leikhlutans og gestirnir leiddu með sjö stigum eftir fyrstu tíu mínúturnar.
 
Baldur Ragnarsson stýrði myndarlegri syrpu í upphafi annars leikhluta en hann gerði þá sex góð stig fyrir gestina og Grétar Ingi Erlendsson var að slá sama takt og Baldur og gestirnir tóku á sprett, 2-9 upphlaup á fyrstu tveimur mínútum leikhlutans og Hjalti Vilhjálmsson tók leikhlé fyrir heimamenn.
 
Grétar Ingi hélt áfram að hrella Fjölnismenn í teignum og mikið ánægjuefni fyrir Þorlákshafnarbúa að kappinn sé óðar að komast í gírinn eftir meiðsli. Vörn heimamanna var nokkuð götótt og broddur í leik liðsins minni þegar Ingvaldur Magni var utan vallar. Gunnar Ólafsson setti þó tóninn fyrir gula og kom Ben Smith í tvígang í vandræði, stal fyrst af honum boltanum og skömmu síðar snapaði hann inn sóknarvillu á Smith og gulir pössuðu sig á því að missa gestina ekki of langt frá sér, staðan 44-55 í hálfleik.
 
David Jackson var með 13 stig hjá Þór í hálfleik, hljóðlát 13 stig sem hann skóflaði inn með dugnaði m.a. í sóknarfráköstum en hann tók þrjú slík í fyrri hálfleik. Þá var Guðmundur Jónsson með 10 stig í leikhléi og skoraði þ.a.l. ekkert í öðrum leikhluta. Hjá Fjölni var Chris Smith með 12 stig í hálfleik og þeir Isaac Miles og Ingvaldur Magni báðir með 11.
 
Fjölnir hleypti á sig 29 stigum í fyrsta leikhluta, 21 stigi í öðrum leikhluta og hafa örugglega steingleymt að ræða varnarleikinn í hálfleik því Þórsarar settu 36 stig á heimamenn í þriðja leikhluta og gerðu að margir héldu út um leikinn eftir 30 mínútur. Chris Smith var sterkur í þriðja leikhluta hjá Fjölni, Darrell Flake réð illa við hann á meðan Jackson var upptekin af því að verjast Ingvaldi Magna. Fjölnismenn náðu að minnka muninn í 67-77 en Þórsarar áttu sterkan lokasprett í þriðja og staðan 69-86 að konum loknum og lokuðu gestirnir því leikhlutanum með 2-9 skriðu.
 
Vörn Fjölnismanna hrökk loks í gang í fjórða leikhluta og tókst þeim að halda Þórsurum stigalausum í fjóra og hálfa mínútu og undir 20 stigum þessar 10 mínútur. Guðmundur Jónsson gerði svo endanlega út um vonir Fjölnis í leiknum þegar hann breytti stöðunni í 78-94 með þrist og bæði lið leyfðu yngri og óreyndari mönnum að klára leikinn, lokatölur 93-105 fyrir Þór.
 
Varnarleikur Fjölnis er mikið vandamál, ekkert lið í deildinni fær fleiri stig á sig. Síðasti sigur liðsins í deildinni kom 6. desember eftir epískan slag við ÍR og var þetta níunda deildartapið hjá gulum í röð. Emil Karel Einarsson var í borgaralegum klæðum í liði Þórs í kvöld en þessi fyrrum fyrirliði U18 ára landsliðs Íslands hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið.
 
 
 
Mynd með frétt/ Davíð Þór
Umfjöllun/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -