spot_img
HomeFréttirÞórsarar unnu Grindvíkinga í miklum spennuleik (Umfjöllun)

Þórsarar unnu Grindvíkinga í miklum spennuleik (Umfjöllun)

23:31

{mosimage}

Í kvöld tóku Þórsarar á móti Grindavík á heimavelli sínum í Síðuskóla í 13. umferð í Iceland Express deildinni í körfuknattleik. Fyrir leikinn voru Grindvíkingar taldir sigurstranglegri, þar sem þeir höfðu unnið bæði Keflavík og KR í síðustu leikjum og sátu í 3. sætinu með 14 stig. Heimamenn hins vegar sátu í 9. sætinu með 8 stig, en heimamenn höfðu tapað stórt í síðustu tveim leikjum liðsins gegn Njarðvík og Snæfell. Leikurinn varð jafn og spennandi allan leikinn þar sem gestirnir voru þó ávallt skrefinu á undan. Heimamenn urðu þó sterkari á lokakaflanum og unnu því sætan 6 stiga sigur 104-98.

Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti, og keyrðu upp hraðann. Þórsarar virtust ætla að keyra yfir gestina og náðu fljótt 8 stiga forystu 12:4. Friðrik Ragnarsson þjálfari grindavíkur var ekki seturnar boðið og tók strax leikhlé, lét leikmenn sína heldur betur heyra það. Eftir leikhlé grindvíkinga kom allt annað lið inná, og náðu fljótt að saxa forskot heimamanna niður í eitt stig. Varnir beggja liða voru frekar slappar, leikmenn liðanna virtust hreinlega geta gengið í gegnum varnirnar. Í fyrsta leikhluta voru heimamenn þó ávallt skrefinu á undan, en stórleikur Páls Axels Vilbergssonar kom í veg fyrir að heimamenn næðu að stinga gestina af og setti niður hvert skotið á fætur öðru. Páll Axel náði svo með lokaskoti sínu í fjórðungnum að jafna leikinn 33:33.

Í byrjun annars leikhluta skiptust liðin á að skora. Páll Axel hélt þó áfram uppteknum hætti, setti niður bæði þriggja sem og tveggja stiga skot niður. Með Pál fremstan í flokki náðu gestirnir mest tíu stiga forskoti og fóru því með 10 stiga forystu í hálfleik 45:55. Ásamt Pál Axel, var Helgi Jónas fríkur og náði að fríska upp á sóknarleik gestanna, meðal annars skoraði Helgi Jónas sín fyrstu stig eftir að hann kom aftur tilbaka.

Þriðji leikhluti var ekki ósvipaður og annar. Bæði lið skiptust á að skora, en gestirnir voru þó ávallt skrefinu á undan og héldu 6-8 stiga forystu. Svo fór að grindvíkingar fór með sex stiga forskot inn í fjórða og síðasta leikhlutann. 70:76.

Í fjórða leikhluta náðu heimamenn að stöðva sóknarleik gestanna og náðu jafnt og þétt að minnka muninn og náðu að jafna leikinn þegar 5 mínútur og 44 sekúndur voru eftir af leiknum, 87:87. Eftir það var jafnt með liðunum sem skiptust á að skora. En í lok leiksins náðu heimamenn að stöðva sóknir gestanna þegar á reyndi og náðu að innbyrgða sætan sigur á sterku liði Grindvíkinga 104-98.

Gangur leiksins: (0:2)-(5:2)-(10:4)-(12:4)-(15:9)-(17:15)-(19:18)-(24:20)-(26:22)-(29:24)-(31:28)-(33:33)-(35:33)-(39:40)-(41:47)-(43:50)-(45:52)-(45:55)-(47:57)-(49:57)-(53:59)-(53:63)-(58:65)-(60:66)- (62:66)-(62:70)-(66:72)-(67:74)-(67:76)-(70:76)-(72:76)-(74:80)-(76:83)-(79:85)-(81:85)- (85:87)-(87:87)-(91:87)-(93:87)-(93:93)-(98:93)-(100:93)-(102:95)-(104:98)

Stigahæstir leikmenn Þórs: Cedric Isom 35, Luka Marolt 30, Birkir Heimisson 10, Jón Orri Kristjánsson 9, Óðinn Ásgeirsson 8, Magnús Helgason 4, Þorsteinn Gunnlaugsson 4, Hrafn Jóhannesson 3 og Bjarki Oddsson 1 stig.

Stigahæstir leikmenn Grindavíkur: Páll Axel Vilbergsson 37, Jonathan Griffin 32, Þórleifur Ólafsson 17, Davíð Hermannsson 8, Helgi Jónas Guðfinnsson 3 og Adam Darboe 1 stig.

Páll Axel Vilbergsson var mjög svekktur í leikslok ,, Jú, ég er rosalega svekktur, þetta var lélegt, mjög lélegt hjá okkur. Kannski ekkert tekið af Þórsörunum, en við verðum að gefa þeim eitthvert kredit, því þeir spiluðu ágætlega hér í kvöld, við vorum hins vegar skelfilegir. Við köstuðum þessu frá okkur með einhverju helv… einstaklingsframtaki og vorum bara lélegir. Áttum góða leiki gegn KR og Keflavík. Góðir sigrar, en spiluðum bara ekki nægilega vel í kvöld. Þórsararnir töpuðu illa í síðasta leik, og við vissum að þeir myndu koma dýrvitlausir í þennan leik, og þetta yrði hörkuleikur því þetta væri hörkulið sem við værum að mæta hérna. Það var bara eins og það væri einhver deyfð yfir þessu hjá okkur í byrjun, en komust til baka. Hélt að þetta væri komið þá, en duttum niður á eitthvert annað plan í seinni hálfleik. Var bara lélegt. Ég hitti vel í fyrri hálfleik, en spilaði mjög illa í þeim síðari. Hefði átt að spila betur, var bara einfaldlega lélegt.

Cedric Isom var virkilega ánægður með sigurinn ,,Ég er mjög ánægður með sigurinn í kvöld. Fyrir leikinn höfðum við strákarnir fund, og komust að því að við þyrftum að vera grimmari, stíga upp og spila betri vörn, sem við gerðum hér í kvöld”. Cedric Isom skoraði 35 stig í leiknum og var sáttur með sína eigin frammistöðu í kvöld, þó að sigur skipti þó öllu máli. ,, Ég er ánægður með frammistöðu mína, sem lengi sem við vinnum leiki. Að vinna leiki er það eina sem gildir”.

Hrafn Kristjánsson var einnig sáttur með sigur kvöldsins, ,, Ég er ótrúlega stoltur, eftir útreiðina í Njarðvík og sá skortur af sjálfstrausti sem sýndi sig þar, er ekki auðvelt að ná sér upp úr svoleiðis. Ég á ekki neitt í því, drengirnir ákváðu sjálfir að snúa blaðinu við. Grindvíkingarnir skora 98 stig í leiknum, en það breytir því ekki að við náðum að stoppa þá þegar þess þurfti. Þeir skora 13 stig í þriðja leikhluta, 42 í seinni hálfleik. Páll Axel var kominn með 28 stig í fyrri hálfleik, við breytum áherslunum á móti honum og þetta er gríðarlegur karakter sigur.  

Næsti leikur Þórs í deildinni er heimaleikur á móti toppliði deildarinnar, Keflavík þann 24 janúar næstkomandi í íþróttahúsinu við Síðuskóla.

Texti: Sölmundur Karl Pálsson – www.thorsport.is

Mynd: Jón Ingi Baldvinsson – Fleiri myndir er að finna á heimasíðu hans sem og heimasíðu Rúnars Hauks Ingimarssonar

Fréttir
- Auglýsing -