spot_img
HomeFréttirÞórsarar tryggðu sér oddaleik

Þórsarar tryggðu sér oddaleik

Þór tók á móti Val í úrslitakeppni fyrstu deildar karla í körfubolta í leik sem fram fór í íþróttahúsinu við Síðuskóla. Valur vann fyrstu viðureign liðanna sem fram fór í Vodafonehöllinni og hefðu með sigri í gærkvöld komist í úrslit um laust sæti í úrvalsdeild en Þór varð að vinna til að tryggja sér oddaleik. Þórsarar komu mjög vel stemmdir til leiksins enda vissu þeir manna best að tap hefði þýtt að liðið væri komið í sumarfrí, og það er nokkuð sem enginn var til í á þessari stundu.
 
Þórsliðið byrjaði leikinn mjög vel og náðu strax ágætis tökum á leiknum og leiddu með fimm stigum eftir fyrsta fjórðung 21-16.  Í öðrum leikhluta hittu menn ágætlega, mikil barátta og vilji í Þórsliðinu skilaði því að gestirnir ógnuðu ekki í fyrri hálfleik að nokkru gagni. Leikhlutann vann Þór örugglega 27-18 og höfðu því fjórtán stiga forskot í hálfleik 48-34.
 
Valsmenn komu mun ákveðnari til leiks í þriðja leikhlutanum og hittni þeirra fór að batna á sama tíma og hittni heimamanna tók að dala. Undir lok þriðja leikhluta fékk Darco sína fimmtu villu og kom því ekki meira við sögu í leiknum. Valsmenn unnu fjórðungninn með þremur stigum og munurinn því komin niður í ellefu stig þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst 65-54.
 
Fjórði einkenndist af mikilli baráttu beggja liða og má eiginlega með sanni segja það hafi komið niður á gæðum körfuboltans að nokkru leiti. Gestirnir lögðu allt í að freista þess að vinna leikinn til að sleppa við oddaleik en Þórsarar ætluðu sér klárlega að knýja fram oddaleik. Um tíma náðu gestirnir að minnka muninn í fimm stig en þeir héldu ekki út og Þórsarar lönduðu níu stiga sigri 81-72 og þeir halda enn í vonina um að komast í úrslitaleikina um laust sæti í efstu deild.
 
Sigur Þórs í gærkvöld var klárlega liðsheildarinnar en enn og aftur sýndi ,,gamla“ brýnið Óðinn Ásgeirsson hversu öflugur leikmaður hann er. Hann var hreint út sagt frábær með 17 stig, 12 fráköst og eina stoðsendingu. Ólafur Aron var einnig öflugur með 17 stig og 10 stoðsendingar, Elías Kristjánsson var með 13 stig og Halldór Örn með 11.
Hjá Val var Birgir Björn Pétursson lang atkvæðamestur með 22 stig 6 fráköst og 8 stoðsendingar, Kristinn Ólafsson var með 12 stig og Rúnar Ingi Erlingsson var með 11.
 
Í hálfleik stigu strákar úr minnibolta á sviðið og léku stuttan sýningarleik fyrir áhorfendur en þessir strákar undir stjórn Ágústs Guðmundssonar leika til úrslita um Íslandsmeistarartitilinn síðar í apríl. Flottir strákar. 
 
Oddaleikur Þórs og Vals verður leikinn í Vodafonehöllinni sunnudaginn 7. apríl og hefst leikurinn kl. 14:00.
 
En fyrir þá sem ekki komast á leikinn skal á það bent að heimasíða Þórs stefnir á að vera á staðnum og sýna leikinn á ÞórsTV.
 
 
Mynd og umfjöllun/ Páll Jóhannesson
  
Fréttir
- Auglýsing -