spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaÞórsarar tóku 1-2 forystu eftir sigur í framlengingu

Þórsarar tóku 1-2 forystu eftir sigur í framlengingu

Þór Þorlákshöfn tók í kvöld 1-2 forystu í 8-liða úrslitum gegn Njarðvík í Subway-deild karla með framlengdum spennusigri í Ljónagryfjunni. Lokatölur 107-110 í æsispennandi og skemmtilegum leik.

Darwin Davis átti svakalegan dag með 30 stig og 8 stoðsendingar og þá sannaði Tómas Valur Þrastarson enn eina ferðina þyngd sinnar virði í gulli með 25 stig og 7 fráköst. Hjá Njarðvík var Milka með tröllatvennu, 29 stig og 20 fráköst og Chaz Williams reiddi einnig fram tvennu með 23 stig og 12 stoðsendingar.

Þórsarar fóru vel af stað, skoruðu 31 stig í fyrsta leikhluta og heimamenn svöruðu svo í sömu mynt í öðrum leikhluta og leiddu 62-53 í hálfleik. Hraður og harður leikur þar sem mikið var skorað og eins og við var að búast hélt fjörið áfram í síðari hálfleik.

Í þriðja áttu Þórsarar aftur gólfið en heimamenn í Njarðvík bitu frá sér í fjórða leikhluta og náðu að jafna metin 100-100 með körfu frá Milka þegar 0,8 sekúndur lifðu leiks. Í framlengingunni virtust gestirnir ætla að stinga af en Njarðvíkingar fengu lokaskot leiksins en boltinn vildi ekki niður hjá Dwayne Lautier-Ogunleye og Þórsarar fögnuðu því sigri.

Það gekk á ýmsu í kvöld, T-villur fyrir flopp og mótmæli, U-villur nokkuð algengar og einu sinni virtist ætla að sjóða upp úr hjá Dwayne og Semple sem lyktaði með þeirri niðurstöðu að báðir fengu U-villu. Bæði lið fengu svo góðar innspýtingar af bekknum þar sem Veigar Páll Alexandersson átti glimrandi leik og gerði 18 stig fyrir Njarðvík og fyrirliðinn Maciej Baginski bætti við 13. Hjá Þór kom Semple sterkur af bekknum með 21 stig.

Það eru því allar forsendur fyrir svakalegum leik í Þorlákshöfn á mánudag þar sem Njarðvíkingar verða með bakið uppi við vegg og Þórsarar eygja von á sæti í undanúrslitum. Ætli það sé ekki ráðlegt að mæta tímanlega í Icelandic Glacial Höllina eftir helgi!

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -