spot_img
HomeFréttirÞórsarar sterkari í lokin

Þórsarar sterkari í lokin

Þórsarar tóku á móti Snæfell í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en að lokum voru það heimamenn í Þór sem fögnuðu sigri, 94-90.
 
Ljóst var að stuðningsmönnum Þórs var farið að lengja töluvert eftir því að komast á körfuboltaleik, pallarnir voru þétt setnir og ágætis stemmning í húsinu í þessum fyrsta leik eftir alltof langt jólafrí.
 
Leikurinn var sem áður segir jafn allan tímann og hvorugu liðinu tókst að ná upp afgerandi forystu. Það var leikinn ansi hraður körfubolti og oft og tíðum litu skemmtileg tilþrif dagsins ljós, þrátt fyrir að mistök beggja liða hafi verið þónokkur, eins og kannski eðililegt er í fyrsta leik eftir jól.
 
Munurinn varð mestur í öðrum leikhluta, þegar Snæfellingar áttu góðan kafla og náðu átta stiga forystu, 42-34. Þórsarar söxuðu þann mun þó niður í eitt stig fyrir hálfleik og Nemanja Sovic endaði hálfleikinn á frábærum flautuþrist í spjaldið og ofaní.
 
Fyrir fjórða leikhluta var enn allt í járnum og staðan 69-68 heimamönnum í vil. Þórsarar höfðu yfirhöndina í leikhlutanum og náðu með góðri vörn að koma í veg fyrir að Snæfell næði að jafna leikinn á lokametrunum. Þar lék Raggi Nat stóra rullu, hann hirti gott varnarfrákast og geystist svo upp völlinn (án bolta) og tróð boltanum af krafti í körfu Snæfellinga nokkrum sekúndum síðar. Það kom Þórsurum í 89-86 og 50 sekúndur eftir á klukkunni. Í næstu sókn tók Ragnar sig síðan til og varði skot frá Travis Cohn og hirti þarnæst af honum boltann. Síðan komust Þórsarar á vítalínuna og þar setti Baldur Þór bæði skotin niður af fádæma öryggi. Þar með var leikurinn í raun búinn.
 
Travis Cohn, nýr Bandaríkjamaður Snæfellinga leit nokkuð vel út í kvöld, skilaði 23 stigum og var lunkinn í að finna félagana. Það verður spennandi að sjá hvernig hann kemur út þegar liðið slípast betur saman eftir þetta langa frí.
 
Emil Karel sneri aftur í lið Þórsara eftir meiðsli og stóð sig með prýði í kvöld á báðum endum vallarins. Innkoma hans gefur Þórsliðinu aukna breidd sem ekki veitir af.
 
 
Umfjöllun/ Arnar Þór Ingólfsson
Mynd úr safni/ Miðherjinn Ragnar Nathanaelsson var drjúgur á í blálokin
 
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -