spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÞórsarar sterkari á lokasprettinum í Síkinu

Þórsarar sterkari á lokasprettinum í Síkinu

Tindastóll tók á móti Þór Ak. í fyrstu deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Í liði gestanna eru margir fyrrum leikmenn Stólanna og ljóst að hart yrði barist.

Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt en 3 þristar frá Hrefnu Ottós sköpuðu 10 stiga forystu gestanna um miðjan fyrsta leikhlutann. Emese og Chloe löguðu stöðuna aðeins fyrir Tindastól seinni hluta fjórðungsins en gestirnir leiddu 18-22 eftir hann.

Heimastúlkur í Tindastól náðu að hleypa leiknum upp í öðrum fjórðung, spiluðu hörkuvörn og Emese Vida skoraði fyrstu 7 stig þeirra í leikhlutanum og fór mikinn. Chloe Rae fór að fá betri skot og aðrir leikmenn komust betur inn í leikinn. Þristur frá Ingu Sól kom heimastúlkum í 6 stiga forystu undir lok hálfleiksins en Marín Lind lagaði stöðuna með þrist, staðan 42-36 fyrir Tindastól í hálfleik. Á fyrstu mínútu seinni hálfleiks fékk Emese Vida tæknivillu sem virtist nokkuð soft en þetta var hennar fjórða villa og hún fór beint á bekkinn aftur. Jafnræði var með liðunum og hart barist áfram og gríðarlega fagnað þegar Fanney kom Tindastól í 48-44 um miðjan þriðja leikhluta. Gestirnir svöruðu með 10-3 kafla og leiddu með 3 stigum fyrir lokaátökin.

Í upphafi fjórða leikhluta var ljóst að Þórsstúlkur höfðu fengið skýr fyrirmæli um að ráðast að körfunni og það skilaði sér í því að þær fengu töluvert af vítaskotum og nýttu þau ágætlega. Hrefna Ottós kom stöðunni í 60-71 með þristi þegar rúmlega 4 mínútur voru eftir og Stólastúlkur komust ekki inn í leikinn eftir það þrátt fyrir góða baráttu áfram í vörninni. Þór bætti hægt og rólega í og enduðu með að vinna 21 stigs sigur 66-87.

Hjá gestunum var Maddie Sutton gríðarlega sterk með 23 stig og 22 fráköst þrátt fyrir að hafa farið rólega af stað. Marín kom sterk inn af bekknum og skilaði 17 stigum eins og Hrefna Ottósdóttir sem var að hitta vel. Hjá Tindastól voru Chloe og Emesa báðar með 25 framlagsstig og Chloe var stigahæst með 30 stig. Þórsarar töpuðu 25 boltum á móti 13 hjá Stólum en heimastúlkur náðu ekki að nýta sér það enda einungis með 32% skotnýtingu.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -