spot_img
HomeFréttirÞórsarar sterkari á endasprettinum (Umfjöllun)

Þórsarar sterkari á endasprettinum (Umfjöllun)

10:06
{mosimage}

Í gærkvöld tóku Þórsarar á móti liði Stjörnunnar í 6. umferð Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Þórsarar byrjuðu leikinn betur en smá saman hresstust Stjörnumenn og voru ávallt á skrefi undan Þórsurum og allt stefndi í sigur gestanna. Hins vegar voru Þórsarar sterkari á lokakaflanum og unnu 10 stiga sigur, 99-89.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur en gestirnir og voru skrefinu á undan gestunum í byrjun fjórðungsins. Hins vegar náðu Stjörnumenn fljótt taktinum og komust smá saman betur inn í leikinn og með góðum endaspretti í 1. fjórðung náðu Stjörnumenn forystunni og leiddu því leikinn með einu stigi í lok fjórðungsins.

Stjörnumenn byrjuðu annan leikhluta betur en þann fyrri og náðu smá saman að byggja upp þægilegt forskot. Þegar 2 mínútur og 46 sekúndur voru eftir af fjórðungnum voru Stjörnumenn komnir með 10 stiga forystu, 30:40 og Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs sá engan annan kost en að taka leikhlé. Leikhléið virtist vekja heimamenn sem náðu að minnka forskot Stjörnunnar niður í 3 stig í lok fjórðungsins og því staðan í hálfleik 43:46 Stjörnunni í vil. Í fyrri hálfleik var Jovan Zadrevski mjög góður fyrir Stjörnumenn og nýtti þriggja stiga skotin sín mjög vel, hins vegar voru Þórsarar ekki að spila undir getu.

Síðari hálfleikur einkenndist af því að bæði lið skiptust á að skora, heimamenn brenndu þó nokkrum sinnum af auðveldum skotum á meðan Stjörnumenn nýttu sín þriggja stiga skot mjög vel og var þar Jovan Zadrevski fremstur meðal gestanna. Stjörnumenn voru því ávallt skrefinu á undan strákunum okkar og þegar þriðja leikhluta lauk leiddu Stjörnumenn leikinn með þriggja stiga mun, 65:68

Fjórði leikhluti var virkilega skemmtilegur og spennandi. Fjórðungurinn byrjaði þó eins og þriðji leikhluti, liðin skiptust þó ávallt á að skora en Stjörnumenn voru ávallt skrefinu undan. Þegar um tvær mínútur voru eftir af fjórðungnum voru Stjörnumenn með fimm stiga forystu, 81:86 og allt virtist stefna í góðan útisigur gestanna. Þórsarar neituðu þó að gefast upp, og fóru fram æsispennandi lokamínútur. Þegar um mínúta var eftir af leiknum komust heimamenn yfir 90:89 með þriggja stiga körfu frá Guðmundi Jónssyni. Þessi þriggja stiga karfa Guðmundar virtist slá garðbæinga alveg út af laginu og má segja að Jón Orri Kristjánsson hafi tryggt sigur heimamanna með að setja niður tvo vítaskot þegar 17 sekúndur voru eftir. Þegar 6 sekúndur voru eftir af leiknum fékk leikstjórnandi Stjörnunnar, Justin Shouse tæknivillu er hann var óánægður með dómara leiksins fyrir að hafa ekki dæmt villu á Cedric Isom þegar Cedric stal knettinum af Justin. Þórsarar settu niður þrjú af fjórum vítaskotunum sínum niður og staðan því skyndilega orðin 99:89 og því 10 stiga sigur Þórsara staðreynd. 

Í liði Stjörnunnar var Jovan Zadrevski öflugur, og setti niður fimm þrista og heimamenn áttu í töluverðum vandræðum með að stöðva hann. Einnig setti Kjartan Kjartansson niður mikilvæg skot og Justin Shouse spilaði vel fyrir gestinna eins og oft áður. Hins vegar hljóta Stjörnumenn að naga á sér handabökin fyrir að klúðra leiknum eftir að hafa verið með forystu þegar aðeins 1 og hálf mínúta var eftir. Hins vegar voru heimamenn ekki nógu góðir framan af en fjórði leikhluti var góður hjá heimamönnum sem kláruðu leikinn mjög vel. Cedric Isom var samur við sig og skoraði 32 stig. Þá átti Jón Orri Kristjánsson fínan leik fyrir heimamenn er hann skoraði 22 stig. Þá var Guðmundur Jónsson mikilvægur fyrir norðanmenn í lok leiksins er hann setti niður mikilvæg skot og ekki má gleyma þætti fyrirliðans Hrafns Jóhannessonar sem setti niður 14 stig í leiknum. En heilt yfir hljóta Stjörnumenn að vera ósáttir við sjálfan sig að ná ekki að klára leikin en hins vegar komu Þórsarar enn og aftur sterkir inn í loka fjórðungin og sýndu mikinn karakter að snúa leiknum sér í vil og vinna tíu stiga sigur.

Texti: Sölmundur Karl Pálsson
Myndir: Rúnar Haukur Ingimarsson
Fleiri myndir frá leiknum má finna inni á vefsíðunni www.runing.com/karfan

{mosimage}

 {mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -