spot_img
HomeBikarkeppniÞórsarar sluppu með skrekkinn gegn spræku liði ÍR í Hellinum

Þórsarar sluppu með skrekkinn gegn spræku liði ÍR í Hellinum

Þór lagði ÍR í Breiðholtinu í kvöld í 8 liða úrslitum VÍS bikarkeppni karla, 87-89.

ÍR-ingar mættu virkilega vel stemmdir til leiks í kvöld, leiða eftir fyrsta leikhluta með 8 stigum, 26-18. Þeir halda svo bara áfram, opna annan leikhlutann á 7-0 áhlaupi og eru komnir 13 stigum yfir eftir um 12 mínútna leik. Heimamenn gera vel að halda forystu sinni út annan leikhlutann, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er staðan 46-38.

Þórsarar mæta svo mun betur til leiks í seinni hálfleiknum. Ná á fyrstu fimm mínútum hans að skera forskot heimamanna niður hægt og rólega og eru aðeins 2 stigum frá þeim þegar 4 mínútur eru eftir af þriðja, 52-50. Á lokamínútu þess þriðja fullkomna þeir svo endurkomuna og jafna leikinn í 58-58, en staðan fyrir þann fjórða er 61-60.

Lengst af í þeim fjórða er þetta svo einnar körfu leikur. Á síðustu mínútunni er þetta svo bara stál í stál. Þegar 27 sekúndur eru eftir nær Luciano Massarelli að koma Þór einu stigi yfir, 87-88.

Skot ÍR í sókninni á eftir geigar og þá eru aðeins tæpar 3 sekúndur eftir. ÍR nær að senda Þór á línuna, þar sem Luciano kemur Þór 2 stigum yfir, 87-89, en tíminn er of knappur. ÍR nær ekki lokaskoti og Þór vinnur að lokum með þessum 2 stigum, 87-89.

Atkvæðamestur fyrir ÍR í leiknum var Igor Maric með 17 stig og 7 fráköst. Fyrir Þór var það Glynn Watson sem dró vagninn með 12 stigum, 14 fráköstum og 8 stoðsendingum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -