spot_img
HomeFréttirÞórsarar skelltu deildarmeisturunum

Þórsarar skelltu deildarmeisturunum

Þórsarar unnu sætan sigur á nýkringdum deildarmeisturum Tindastóls, 93 – 88 í hörkuleik í Síðuskóla í gærkvöldi. Jafnt var á með liðunum allan leikinn en taugar heimamanna voru sterkari undir lok leiksins og kláruðu leikinn á vítalínunni.
 
Það var þó Jarrell nokkur Crayton leikmaður Þórs sem stal senunni í gærkvöldi og var það ljóst í upphafi leiks í hvað stefndi hjá þessum öfluga framherja. Heimamenn voru nokkuð rólegir í byrjun leiks, misstu knöttinn klaufalega eða kláruðu ekki sókninar sem skyldi. Jafnframt áttu Þórsarar í miklum vandræðum með pressuvörn gestanna sem náðu fljótt forystunni, 9-7. Bjarki Ármann þjálfari Þórs tók leikhlé til að róa sína menn niður og finna lausnir á pressuvörn Stólanna. Sóknarleikur heimamanna var oft á tíðum stirður en Jarrell Crayton var sá eini sem var tilbúinn í sóknarleiknum. Jarrell hélt heimamönnum á floti með 10 stigum og var helsta ástæðan fyrir að Þórsarar leiddu leikinn 20 – 19 eftir fyrsta fjórðung.
 
Jafn var þó með liðum lengi vel í fyrri hálfleik og liðin skiptust á að vera með forystuna. Sveinn Blöndal tók við keflinu af Jarrell og setti nokkur stig niður á meðan Darrell Flake var allt í öllu hjá gestunum og dreif gestina áfram með leik sínum. Í lok fyrri hálfleiks small vörn heimamanna saman. Gáfu gestunum ekkert pláss og náðu 14 – 6 spretti. Þessi góði endasprettur skilaðu heimamönnum 8 stiga forskoti, 44 – 38 í leikhléi.
 
Seinni háflleikur byrjaði rólega en gestirnir þó byrjuðu ögn betur. Antoine Proctor náði sér ekki á strik í kvöld og kom það í hlut Darrell Flake að drífa liðið áfram með hjálp Helga Freyr og Helga Hrafn. Smá saman náðu gestirnir að minnka muninn örlítið en náðu þó aldrei að jafna þar sem heimamenn héldu sínu 3 – 5 stiga forskoti. Þórsarar með Jarrell Crayton í fararbroddi náðu þó að halda þriggja stiga forskoti fyrir 4 og síðasta fjórðung, 70 – 67.
 
Fjórði leikhluti var afar spennandi frá upphafi til enda. Það var nokkuð ljóst að gestirnir frá Sauðarkróki ætluðu ekkert að gefa neitt eftir. Þrátt fyrir að Darrell Flake væri rólegri í síðasta fjórðung náðu þeir Helgi Freyr og Pétur Rúnar að taka við keflinu og halda uppi sóknarleik gestanna. Aftur á móti voru þeir Ólafur Aron og Jarrell Crayton óstöðvandi og settu niður mikilvæg stig á lokakaflanum. Leikurinn kláraðist þó á vítalínunni og ótrúlegt en satt voru heimamenn sallarólegir á línunni í kvöld (71% vitanýting! Gerist ekki oft) og kláruðu sín skot. Tindastóll náðu ekki að galdra eitthvað upp úr hatti sínum undir lok leiksins og því tryggðu heimamenn sér sætan sigur, 93 – 88.
 
 
 
 
Texti/ Sölmundur Pálsson

Mynd/ Páll Jóhannesson - Jarrell Crayton splæsti í þessa myndarlegu troðslu meðal annars
 
 
Fréttir
- Auglýsing -