Þórsarar lögðu nafna sína frá Akureyri í kvöld í þriðja leik átta liða úrslita einvígis liðanna í Dominos deild karla, 109-104. Heimamenn því aftur komnir með yfirhöndina í einvíginu, 2-1, en næsti leikur liðanna er komandi miðvikudag á Akureyri.
Gangur leiks
Það voru gestirnir frá Akureyri sem byrjuðu leikinn mun betur. Ná að byggja sér umm þægilega 7 stiga forystu í fyrsta fjórðungnum, 26-33, en þeir höfðu mest leitt með 10 á þessum upphafmínútum. Undir lok fyrri hálfleiksins gera gestirnir vel í að verjast áhlaupum heimamanna og halda í eitthvað forskot, staðan 54-57 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.
Á löngum köflum í fyrri hálfleiknum var það Larry Thomas sem hélt heimamönnum inni í leiknum, á tæpum 17 mínútum spiluðum skilar hann 23 stigum og 5 stoðsendingum í þessum fyrstu tveimur fjórðungum. Fyrir gestina voru þeir Dedrick Basile og Guy Landry bestir á upphafmínútunum, en Júlíus Orri Ágústsson og Kolbeinn Fannar Gíslason tóku við stigaskorunarkeflinu eftir því sem leið á hálfleikinn.
Í upphafi seinni hálfleiksins sýna heimamenn mátt sinn og megin. Ná góðu áhlaupi á gestina og sínu mesta forskoti í leiknum til þessa, 11 stigum í þriðja leikhlutanum, en fyrir lokaleikhlutann leiða þeir með 7 stigum, 88-81. Undir lokin gera þeir svo vel í að vera skrefinu á unda. Gestirnir fá nokkur tækifæri til þess að jafna leikinn á lokamínútunum, en allt kemur fyrir ekki. Niðurstaðan 5 stiga sigur heimamanna, 109-104.
Tölfræðin lýgur ekki
Þór Akureyri tapaði boltanum í 17 skipti í leiknum á móti aðeins 6 töpuðum boltum heimamanna. Á stigum skoruðum af þessum töpuðu boltum settu heimamenn 21 á móti aðeins 5 stigum skoruðum eftir tapaðan bolta hjá Þór Akureyri.
Atkvæðamestir
Larry Thomas var hreint út sagt stórkostlegur fyrir heimamenn í dag, skilaði 29 stigum, 5 fráköstum og 10 stoðsendingum. Fyrir gestina var Dedrick Basile bestur með 27 stig, 6 fráköst og 11 stoðsendingar.
Hvað svo?
Næsti leikur liðanna er komandi miðvikudag 26.maí kl. 18:15 í Höllinni á Akureyri.
Myndasafn (Atli Mar)