spot_img
HomeFréttirÞórsarar gáfu Íslandsmeisturunum á kjaftinn í fyrsta leik undanúrslita

Þórsarar gáfu Íslandsmeisturunum á kjaftinn í fyrsta leik undanúrslita

Þór lagði Íslandsmeistara Vals í kvöld í fyrsta leik undanúrslita Subway deildar karla, 75-83. Þór leiðir einvígið því 1-0, en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sig í úrslitin.

Fyrir leik

Á leið sinni í undanúrslitin lögðu Íslandsmeistarar Vals lið Stjörnunnar 3-1 á meðan að Þór fór alla leið í oddaleik á móti Haukum.

Nokkur skörð voru leikmannahópum beggja liða í kvöld. Hjá Þór vantaði Pablo Hernandez Montenegro á meðan að hjá Val var Kristófer Acox fjarri góðu gamni. Báðir meiddust leikmennirnir í 8 liða úrslitum keppninnar, en ekki er útséð með þátttöku þeirra í undanúrslitunum.

Gangur leiks

Varnarlega mæta heimamenn klárir til leiks. Leyfa Þór ekki að komast á blað í stigaskorun fyrr en eftir tæplega þriggja mínútna leik. Gestirnir ná þó áttum fljótt og halda vel í við heimamenn út fyrsta leikhlutann, 20-16. Þórsarar opna annan fjórðung svo á sterku 15-1 áhlaupi. Mest koma þeir forystu sinni í 10 stig undir lok hálfleiksins, en heimamenn ná að laga stöðuna áður en liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 40-44.

Stigahæstur fyrir Þór í fyrri hálfleik var Styrmir Snær Þrastarson með 13 stig á meðan að Callum Lawson var kominn með 15 stig fyrir Val.

Þórsarar byrja seinni hálfleikinn svo betur, en ná ekki að hrista Val af sér, sem enn eru 5 stigum undir þegar þriðji fjórðungur er rúmlega hálfnaður, 51-56. Ná þó aðeins aftur að gefa í undir lok leikhlutans og leiða með 11 stigum fyrir þann fjórða, 51-62.

Tilraunir heimamanna til þess að komast aftur inn í leikinn í fjórða leikhlutanum virtust hálf slappar. Áttu gífurlega erfitt með að koma stigum á töfluna á meðan að sóknarleikur Þórs gekk eins og vel smurð vél. Munurinn 14 stig þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka, 62-74, og að lokum sigruðu þeir leikinn nokkuð þægilega, 75-83.

Atkvæðamestir

Bestur í liði Þórs í kvöld var Styrmir Snær Þrastarson með 18 stig, 5 fráköst, 9 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

Fyrir Val var það Callum Lawson sem dró vagninn með 22 stigum og 5 fráköstum.

Hvað svo?

Annar leikur undanúrslitaeinvígis liðanna er í Þorlákshöfn komandi mánudag 24. apríl.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -