spot_img
HomeMyndbandÞórsarar frá Þorlákshöfn sóttu 2 stig í Síkið

Þórsarar frá Þorlákshöfn sóttu 2 stig í Síkið

Íslandsmeistarar Tindastóls tóku á móti Þór Þ. í Subway deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Svavar Atli Birgisson stýrði liðinu í fjarveru Pavels Ermolinski sem er í veikindaleyfi.

Leikurinn byrjaði fjörlega og Þórsarar sýndu fljótt að þeir voru ekki komnir norður til að vera áhorfendur. Fyrstu þrír þristar gestanna rötuðu rétta leið og ljóst að þeim líkaði vel við körfurnar í Síkinu. Stólar börðust á móti og Callum Lawson var áberandi í byrjun leiks. Tvö víti frá Drungilas skiluðu heimamönnum 5 stiga forystu uppúr miðjum leikhlutanum en gestirnir komu til baka og Semple minnkaði muninn í eitt stig þegar leiktíminn rann út. Annar leikhlutinn byrjaði erfiðlega hjá heimamönnum og gestirnir náðu átta stiga forystu en Stólar náðu að rykkja til baka og einu stigi munaði í hálfleik, 39-40. Þórsarar voru að hitta vel og Lárus náði að hreyfa liðið ágætlega þannig að varla var að sjá svita á leikmönnum í hálfleik.

Í þriðja leikhluta þróaðist leikurinn á svipaðan hátt, Þórsarar náðu forystu en Stólar minnkuðu muninn fyrir leikhlutaskiptin. Sóknarleikur heimamanna var stirður og gestirnir héldu áfram að hitta vel og voru að auki að frákasta vel með Jordan Semple ógnarsterkan undir körfunni. Staðan 58-64 fyrir lokaátökin en enn og aftur voru það gestirnir sem tóku yfirhöndina og héldu áfram að setja niður stór skot. Þegar 4 mínútur voru liðnar kom Tómas Valur gestunum í 15 stiga forystu með öflugri troðslu og útlitið svart hjá heimamönnum. Tindastóll náði að klóra aðeins í bakkann en Þórsarar voru skynsamir á boltanum síðustu mínúturnar og hittu þegar þess þurfti. Lokatölur 79-87 og Tómas Valur lokaði leiknum með troðslu yfir Geks.

Tölfræði leiksins

Hjá gestunum var Tómas Valur stigahæstur með 22 stig og bætti 7 fráköstum við á sinn hljóðláta hátt. Jordan Semple átti frábæran leik með sannkallaða tröllatvennu 14 stig og 14 fráköst. Hjá Stólum var Tóti stigahæstur með 16 stig og Drungilas skilaði 11 stigum og 11 fráköstum. Kanarnir voru langt frá sínu besta og skiluðu aðeins 15 stigum samtals.

Viðtal :

Svavar Atli Birgisson Þjálfari Tindastóls

Umfjöllun og viðtal / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -