Þrír leikir fóru fram í 1. deild karla í kvöld og unnu Breiðablik og Skallagrímur mikilvæga sigra í baráttunni um gott sæti í úrslitakeppninni. Þór Þ. er enn á toppnum ósigrað.
Þórsarar fengu Leikni í heimsókn og sigruðu 82-50. Eric Palm var stigahæstur Þórsara með 16 stig en 6 leikmenn skoruðu 10 stig og meira. Hinsvegar skoraði enginn gestanna 10 stig eða meira en Eiríkur Örn Guðmundsson var með 8 stig.
Í Smáranum voru FSu menn í heimsókn. Blikar unnu nokkuð örugglega 76-53 en eins og fram hefur komið á karfan.is er Richard Fields sem var besti leikmaður FSu fyrir jól ekki lengur með þeim. Þorsteinn Gunnlaugsson var stigahæstur Blika með 22 stig auk þess sem hann tók 16 fráköst. Valur Orri Valsson var með 23 stig fyrir FSu.
Í Vodafonehöllinni sóttu Skallagrímsmenn góðan sigur í leik þar sem Valsmenn leiddu í fyrri hálfleik en svo stungu Skallagrímsmenn af í þeim seinni. Darrell Flake skoraði 26 stig fyrir Borgnesinga og Hafþór Gunnarsson 23. Calvin Wooten skoraði 28 stig fyrir heimamenn.
Mynd: Sigga Leifs