Í kvöld er leikið í 1. deild karla sem og í Iceland Express-deild karla. Leikur kvöldsins er án efa viðureign Þórsliðanna frá Þorlákshöfn og Akureyri en þau sitja í tveimur efstu sætum 1. deildar karla. Það lið sem vinnur í kvöld situr á toppi deildarinnar.
Þorlákshafnar-Þórsarar eru með 14 stig á meðan Akureyrar-Þórsarar eru með 12 stig. Þetta verður alvöru slagur.
Á Selfossi taka heimamenn í FSu á móti Ármenningum og í Vodafone-höllinni etja kappi Valur og Laugdælir.
Í Iceland Express-deild karla taka Njarðvíkingar á móti KFÍ en þessi leikur átti að fara fram í gær en var frestað vegna þess að ekkert var flogið til Ísafjarðar. Bæði lið þurfa á stigum að halda en KFÍ er í fallsæti með 4 stig á meðan Njarðvíkingar eru aðeins ofar með 6 stig.
Leikir kvöldsins:
IE-deild karla: Njarðvík-KFÍ 19.15
1. deild karla: Þór Þ.-Þór Ak. 19.15
1. deild karla: FSu-Ármann 19.15
1. deild karla: Valur-Laugdælir 20.00
Mynd: Nær Benedikt Guðmundsson að landa sínum áttunda sigri í 1. deild karla í vetur?




