spot_img
HomeFréttirÞórsarar blésu á spárnar með sigri á ÍR

Þórsarar blésu á spárnar með sigri á ÍR

00:57

{mosimage}

Í kvöld sigruðu Þórsarar ÍR-inga 87-85 í æsispennandi leik í Íþróttahúsinu í Síðuskóla. Leikurinn varð jafn í byrjun, en þegar leið á leikinn virtust Þórsarar ætla að síga þægilega fram úr gestunum. Um miðjan þriðja leikhluta náðu ÍR-ingar að minnka munin og jöfnuðu leikinn í fjórða leikhluta. Lokamínútur leiksins voru æsispennandi þar sem ÍR-ingar gátu jafnað í lok leiksins, en 87-85 sigur Þórsara var staðreynd. Frá þessu er greint á www.thorsport.is  

Þórsarar byrjuðu leikinn vel, og skoruðu fyrstu stig leiksins. Bæði lið virtust þurfa tíma til að finna taktinn. Sóknarleikur beggja liða var ryðgaður og einkenndist af töpuðum boltum frekar en góðri vörn. Fjórðungurinn var mjög jafn á öllum sviðum. Mesti munur liðanna var 4 stig þegar Þórsarar leiddu 12-8, en ÍR-ingarnir voru fljótir að svara fyrir sig og komust yfir 12:13. Og þegar leikhlutanum var lokið leiddu heimamenn með 2 stigum, 17-15.

 Gangur leiksins í 1. leikhluta:(2-0)-(2-2)-(6-2)-(8-8)-(12-8)-(12-13)-(14-13)-(14-15)-(17-15) 

Þórsarar byrjuðu annann leikhluta af krafti, með ágætri vörn og sókn. Þórsarar ná mjög fljótt átta stiga forystu í leiknum. Þó svo að sóknin hafði batnað frá fyrsta leikhlutanum, var það þó slök sókn og vörn hjá ÍR-ingum sem gerði heimamönnum auðveldara fyrir. ÍR-ingar virtust missa einbeitinguna og tóku oft ekki nógu góð skot. ÍR-ingar gerðu sér sjálfir erfitt fyrir og náðu því ekki að minnka mun heimamanna. Þórsarar unnu því annann leikhluta 25-17 og leiddu því með tíu stiga mun í hálfleik, 42-32. Óðinn Ásgeirsson fór fyrir heimamönnum í öðrum leikhluta með 6 stig en einnig átti Magnús Helgason ágætis leik í öðrum leikhluta með 5 stig. Hins vegar var annar leikhluti afar slakur hjá gestunum úr Breiðholtinu, og voru kannski heppnir að Þórsarar náðu ekki að slíta sig ennþá lengra frá sér og staðan 42-31 í hálfleik. 

Gangur leiksins í 2. leikhluta (17-17)-(23-19)-(29-21)-(33-23)-(35-25)-(37-27)-(40-29)-(40-32)-(42-31) 

Þórsarar byrjuðu þriðja leikhlutann með miklum látum, og ætluðu sér greinilega að láta kné fylgja kviði og klára leikinn. Þórsarar náðu mest 15 stiga forystu í þriðja leikhlutanum í stöðunni 51-34. Jón Arnar Ingvarsson þjálfari ÍR var fljótur að biðja um leikhlé í von um að stöðva framgöngu Þórsara sem höfðu skorað 9 stig á móti 2 stigum í upphafi þriðja leikhluta. Jón Arnar tók stráka sína á beinið í leikhléinu og skammaði þá duglega. Ræða Jóns virtist hafa mjög góð áhrif á ÍR-inga sem komu kolbrjálaðir til leiks. Jón ákvað að breyta um varnartaktík, og lét liðið sitt pressa heimamenn allan völlinn, og lét þá einnig spila 3-2 svæðisvörn. Þessar breytingar Jóns virtust virka vel, og Þórsarar áttu lítil svör við pressu og svæðisvörn ÍR-inganna.

 

Um miðjan leikhlutann þurfti Hrafn þjálfari Þórs að taka leikhlé til þess að stöðva frekari framgang gestanna, enda höfðu þeir saxað allverulega á forskot heimamanna. Leikhléið virtist litlu breyta, og Þórsarar áttu í stökustu vandræðum með ÍR-inga sem náðu að jafna leikinn þegar um 2 mínútur voru eftir af fjórðungnum 53-53. Heimamenn náðu þó að leiðrétta hlut sinn og leiddu með fjórum stigum í lok fjórðungsins 59-55. ÍR-ingarnir unnu þó fjórðunginn með sex stigum 17-23. Cedric og Óðinn voru skárstu menn heimamanna enda skoruðu þeir 11 stig af 17 stigum heimamanna. Hjá ÍR-ingum var Hreggviður öflugur, sem og Steinar og Sonny Troutman. 

Gangur Leiksins í 3. leikhluta (44-32)-(48-34)-(51-34)-(51-36)-(53-39)-(53-43)-(53-48)-(53-50)-(53-53)-(56-55)-(59-55) 

Fjórði leikhluti var æsispennandi og Þórsarar gerðu leikhlutann alltof spennandi með að missa stundum boltan klaufalega. Þórsarar voru ávallt skrefinu á undan gestunum, sem voru allan fjórðuninn að elta. ÍR-ingar komast í annað skipti yfir í leiknum stöðunni 69-70, og allt virtist stefna í að reynsla ÍR-inga myndi skila sér á lokamínútunum.

 

Þórsarar sýndu mikinn karakter þegar allt virtist ætla að stefna í óefni og náðu að koma sér í þægilega stöðu í stöðunni 85-77. Margur áhorfandinn hélt þá að sigur heimamanna væri í höfn, enda lítið eftir og Þór með átta stiga forystu. En ÍR-ingar eru ekki bikarmeistarar fyrir ekki neitt, og því aldrei hægt að afskrifa þá. ÍR-ingarnir neituðu að gefast upp, og með góðri pressuvörn náðu þeir að minnka munin niður í þrjú stig. Þórsarar gerðu lokamínútuna of spennandi með klaufalegum mistökum, og þegar u.þ.b. tuttugu sekúndur voru eftir fengu ÍR-ingarnir tækifæri til að tryggja sér framlengingu eða jafnvel sigur. En heppnin var með Þórsurum og tveggjastiga skot ÍR-inga geigaði og Þórsarar fóru því með tveggja stiga sigur af hólmi 87-85.

Gangur Leiksins í 4. leikhluta: (62-57)-(64-59)-(66-62)-(69-68)-(69-70)-(74-70)-(79-73)-(82-73)-(84-74)-(85-77)-(85-80)-(85-82)-(87-82)-(87-85) 

Jón Arnar Ingvarsson þjálfari ÍR var skiljanlega ekki mjög sáttur við leikinn:

,,Rosalega langt frá því að ég geti verið sáttur við leikinn, mjög lélegur leikur hjá okkur. Það vantaði margt hjá okkur, bæði stress og einbeitingarleysi hjá okkur við byrjuðum ekki að berjast fyrr en í seinni hálfleik og það var ekki leikur fyrir okkur fyrr en þá. Sóknin gekk mjög illa hjá okkur, vantaði smá stemmningu hjá okkur í varnarleikinn. Þórsarar voru vel stemmdir og klárir, og meira tilbúnari í þennan leik en við. Seinni hálfleikurinn var fínn, var barráta í gangi og svona, en í heildina lítið var þetta ekki ásættanleg frammistaða hjá okkur.” 

Hins vegar var Óðinn Ásgeirsson nokkuð sáttur við leikinn:

,,Frábær vilji, mikil barátta í liðinu og rosalega sterkt að koma til baka eftir að hafa misst leikinn niður. Í þessu liði býr gríðarlega mikill karakter. Frábær stuðningar áhorfanda, frábærir áhorfendur.” Óðinn var þó með báðar fætur á jörðinni, og var ekki alveg tilbúinn til þess að gefa það út hvort hann væri búinn að finna sitt gamla form. ,,Við skulum sjá, ég vona það. Við skulum þó ekki fagna of snemma, það er mikið eftir af mótinu. Engu að síður frábær sigur.” 

Það sást í leiknum að bæði lið eiga mikið inni, og greinilegt að menn eru ennþá að slípa sig saman eftir undirbúningstímabili. Í liði Þórs átti Óðinn Ásgeirsson mjög góðan leik, en einnig átti Cedric Isom fínan leik. Luka Marolt sem hefur átt við meiðsli að stríða á undirbúningstímabilinu kom nokkuð sterkur inn með þrjár þriggja stiga körfur og á ennþá töluvert inni, þar sem hann lenti í villuvandræðum snemma í leiknum. Baldur Ingi átti góða innkomu af varamannabekknum og setti tvær þriggja stiga körfur, og Magnús Helgason átti einnig fína spretti.

Í liði ÍR-inga átti Hreggviður Magnússon fínan leik ásamt Steinari Arasyni. ÍR-ingarnir söknuðu þó eflaust Eiríks Önundarsonar sem hafði hægt um sig í leiknum, og byrjaði í raun ekki að spila eins og hann á að sér fyrr en í lok þriðja leikhluta En fínasta skemmtun engu að síður. Og Þórsarar hefja deildinna vel með sigri, en ÍR-ingar eiga eftir að koma til baka, enda hörku lið þar á ferð. 

Stig Þórs í leiknum: Óðinn Ásgeirsson 25, Cedric Isom 22, Luka Marolt 13, Magnús Helgason 8, Baldur Ingi 8, Þorsteinn Gunnlaugsson 6 og Bjarni Árnason 1. 

Stigahæstu leikmenn ÍR í Leiknum: Hreggviður Magnússon 25, Steinar Arason 16, Eiríkur Önundrason 12, Sonny Troutman 11, Ómar Örn Sævarsson 9, Sveinbjörn Claessen 6, Þorsteinn Húnfjörð 4 og Marko Palada 2 

Frétt af heimasíðu Þórs, www.thorsport.is – merkt Sölmundi Karli Pálssyni

Mynd: www.thorsport.is – Óðinn Ásgeirsson lætur skotið vaða í leik með Þór á undirbúningstímabilinu fyrir skemmstu.

Fréttir
- Auglýsing -