spot_img
HomeFréttirÞórsarar áfram eftir alvöru naglbít

Þórsarar áfram eftir alvöru naglbít

Það voru engin grið gefin í Grindavík í kvöld þegar Íslandsmeistarar Þórs úr Þorlákshöfn sigruðu heimamenn í æsispennandi leik, 86-90. Þórsarar halda því áfram keppni eftir að hafa sigrað í einvíginu, 3-1, og mæta Val í annarri umferð, en Grindvíkingar eru komnir í snemmbúið sumarfrí.

Það var kjaftfullt hús og hiti í Grindavík í kvöld þegar liðin mættust í fimmta sinn á stuttum tíma; Þessi lið mættust í lokaumferð deildarkeppninnar og svo strax í fyrstu umferðinni, Þór þá í öðru sætinu en Grindavík því sjöunda – sem gefur sterklega til kynna hversu góður körfuboltinn er orðinn á Íslandi.

Þessi leikur var afar skemmtilegur á að horfa og baráttan á báðum endum vallarins rosaleg. Þórsarar voru yfir í hálfleik, 42-48, en það var samt einhvern veginn þannig að enginn bjóst við öðru en að leikurinn yrði æsispennandi í lokin, sem og hann varð.

Þór var með örlítið frumkvæði í restina, en þegar Ólafur Ólafsson minnkaði muninn í eitt stig, þegar tíu sekúndur voru eftir, virtist allt mögulegt. En Þórsarar voru skynsamir og yfirvegaðir og kláruðu leikinn með sóma þótt naumur hafi sigurinn verið.

Greinilegt á öllu að Þórsarar munu gera sterkt tilkall til Íslandsmeistaratitilsins, sem þeir unnu svo eftirminnilega í fyrra. Liðið er ógnarsterkt og jafnvel betra en í fyrra og Lárus Jónsson heldur áfram að gera frábæra hluti sem þjálfari. Glynn Watson var frábær í liði Þórsara og gamla brýnið Kyle Johnson er eins og endurfæddur – stigamaskína af Guðs náð. Luciano Massarelli var mjög góður og þá er Ronaldas Rutkauskas hrikalegur nagli undir körfunni, ásamt Daniel Mortensen. Þessir tveir kappar eiga hrós skilið fyrir baráttuna. Annars var liðsheildin mjög góð, og það verður enginn hægðarleikur að stoppa Þórsara.

Hjá Grindavík var EC Matthews flottur í þremur leikhlutum – var kominn með 23 stig eftir þriðja leikhluta. En í þeim fjórða skoraði kappinn aðeins tvö stig, enda var allt kapp lagt á að halda honum niðri, og þá hefur þessi frábæri leikmaður glímt við meiðsli að undanförnu. Í raun má segja svipaða hluti um Ivan Alcolado; hann er rosalegur undir körfunni og oft þarf tvo leikmenn til að stöðva hann. Vonandi höfum við hér á landi ekki séð það síðasta frá þessum leikmönnum. Ólafur Ólafsson var mjög góður sem og Naor Sharabani. Þótt aðrir hafi kannski gert minna þá stóð lið Grindavíkur sig mjög vel þegar á heildina er litið.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, var eðlilega svekktur eftir leik og hafði þetta að segja í spjalli við Körfuna:
“Sárt tap, virkilega. En svona er þetta, stundum fellur þetta með manni og stundum ekki. Við gáfum okkur alla í þetta, en því miður dugði það ekki. Ég er samt mjög stoltur af strákunum mínum; við lékum á löngum köflum mjög vel í þessu einvígi og létum Þórsara hafa fyrir hlutunum.”
Sverrir tók við liði Grindvíkinga af Daníel Guðna Guðmundssyni í lok febrúar, og hafði því ekki langan tíma til að móta liðið. Flestir ef ekki allir eru þó á því að Sverrir hafi gert góða hluti frá því að hann tók við. En ætlar Sverrir að halda áfram í Grindavík?
“Ég veit það ekki á þessari stundu. Nú er að jafna sig á tapinu, sem er alltaf jafn erfitt; en þetta á allt eftir að koma í ljós á næstunni. Ég steig inn í febrúar og við gerðum samning út tímabilið – við sjáum hvað setur.”

Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, veit ekki hvað hann gerir í framhaldinu:
“Við gáfum allt í leikinn og ég er mjög ánægður með leikmenn mína, þeir stóðu sig vel,” sagði Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindvíkinga, í samtali við Körfuna í leikslok.
Bætti við:
“Ég er hins vegar mjög óánægður með eigin frammistöðu þegar á heildina er litið í þessu einvígi; ég vil axla mína ábyrgð og geri. Sérstaklega var ég óánægður og svekktur með sjálfan mig í þriðja leiknum í Þorlákshöfn þar sem ég lét allt fara í skapið á mér og það eru ekki góð skilaboð til leikmanna þegar fyrirliðinn missir hausinn – það gerði ég og ég er svekktur yfir því.”
Ólafur segir að nú taki við frí og að hann ætli ekki alveg strax að taka neina ákvörðun um framhaldið:
“Mig langar að njóta lífsins með fjölskyldunni og líka bara njóta mín í vinnunni. Það var margt gott sem við gerðum á þessu tímabili, en það skorti herslumuninn á að við færum enn lengra.”
Verðurðu áfram í liði Grindavíkur á næstu leiktíð?
“Ég er í fyrsta skipti í mörg ár samningslaus en eins og ég sagði áðan þá ætla ég að flýta mér hægt; sjáum til hvað gerist.”

Davíð Arnar Ágústsson leikmaður Þórsara var að vonum hress í leikslok:
“Að spila við Grindavík er alltaf skemmtilegt, og alltaf erfitt. Skiptir engu máli hvar þeir enda í deildinni – þeir eru alltaf erfiðir. Og það sýnir bara vel hvað deildin er orðin góð að lið í sjöunda sæti veitir liðinu í öðru sæti svakalega keppni – en þannig er það reyndar alltaf þegar maður spilar við Grindavík.”
Davíð segir að liðið stefni klárlega á að fara alla leið núna, eins og í fyrra:
“Maður er í þessu til að vinna, og ég tel lið okkar vera vel í stakk búið til að halda áfram að gera góða hluti í úrslitakeppninni. Valsmenn eru okkar næstu andstæðingar og þeir hafa heldur betur verið á góðu róli að undanförnu og því ljóst að það verður hörkurimma, eins og þessi,” sagði Davíð.

Fréttir
- Auglýsing -