spot_img
HomeFréttirÞorleifur skaut Njarðvíkinga í kaf

Þorleifur skaut Njarðvíkinga í kaf

Njarðvíkingar tóku á móti Grindvíkingum í Ljónagryfjunni í kvöld. Eftir að hafa tapað öðrum leik sínum í röð fyrir viku síðan og það í fyrsta skiptið á tímabilinu, vonuðust Njarðvíkingar til þess að binda enda á taphrinu sína í kvöld. Grindvíkingar höfðu aftur á móti verið á blússandi siglingu fram að leiknum með þrjá sigra í röð.
 
 
Elvar Már Friðriksson fór mikinn í liði Njarðvíkur í fyrsta leikhluta og setti 13 stig í honum og heimamenn skrefinu á undan strax í byrjun. Staðan eftir 10 mínútur 23-19 og allt opið enn sem komið er.
 
Liðin skiptust á litlum áhlaupum í öðrum leikhluta og Njarðvíkingar héldu þeim gulklæddu í hæfilegri fjarlægð. Ómar Örn Sævarsson átti fína rispu þar sem hann skoraði átta stig í röð fyrir gestina (Njarðvíkingar skoruðu á milli), en staðan 41-38 Njarðvík í vil í hálfleik.
 
Elvar Már, Logi Gunnars og Tracy Smith voru þeir einu sem skorað höfðu fyrir Njarðvík í hálfleik og stigaskorið mun betur dreyft hjá gestunum.
 
Grindvíkingar jöfnuðu leikinn snemma í seinni hálfleik og komust yfir eftir það. Jafnt og þétt stækkuðu þeir forystu sína og hún komin upp í átta stig að loknum þriðja leikhluta, 57-65.
 
Þorleifur Ólafsson hafði sett þrjá þrista í þriðja leikhluta og hann hélt áfram að láta rigna í þeim fjórða og bætti við öðrum þremur. Þessi skot voru lykillinn að því að Grindvíkingar náðu að læsa leiknum og unnu að lokum nokkuð öruggan sigur, 79-90.
 
 
 
 
Umfjöllun: AÁ
  
Fréttir
- Auglýsing -