Þór frá Þorlákshöfn hafði betur gegn Þór frá Akureyri 73:85 í þriðju umferð 1. deildar karla í körfuknattleik. Gestirnir frá Þorlákshöfn byrjuðu leikinn betur og höfðu 17 stiga forystu í hálfleik. Heimamenn náðu fínum spretti í síðari hálfleik þar sem þeir minnkuðu muninn niður í 6 stig. Lengra komust þeir þó ekki og gestirnir höfðu að lokum 12 stiga sigur, 73:85.
Gestirnir frá Þorlákshöfn byrjuðu leikinn ögn betur en heimamenn en þegar líða tók á fjórðunginn náðu heimamenn betri tökum á leiknum og náðu forystunni. Gestirnir áttu þó mjög góðan sprett undir lok 1. fjórðungs þar sem þeir skoruðu 17 stig á meðan heimamenn skoruðu aðeins 2 og skyndilega leiddu gestirnir leikinn með 10 stigum.
Gestirnir héldu sama tampi áfram í 2. leikhluta á meðan lítið gekk hjá heimamönnum. Sendingar heimamanna voru slakar og sóknarleikur liðsins stirrður. Gestirnir nýttu sér þetta í vil og náðu mest 20 stiga forystu um miðjan fjórðunginn 28:48. Böðvar Kristjánsson þjálfari heimamanna brá á það ráð að skipta yfir í svæðisvörn. Heimamenn virtust hressast örlítið við þessa breytingu en munurinn varð samt sem áður 17 stig þegar liðin gengu til búningsklefa.
Heimamenn mættu grimmari til leiks í síðari hálfleik. Heimamenn fóru að spila grimma svæðisvörn og áttu gestirnir í miklum vandræðum með að finna leið í gegnum vörnina. Smá saman tókst heimamönnum að minnka mun gestanna og þegar þriðja leikhluta lauk var forysta gestanna komin niður í 8 stig, 57-65. Baráttan hélt áfram í fjórða leikhlutanum þar sem heimamenn héldu áfram að þjarma að gestunum og náðu að minnka munin niður í 6 stig, 66-72. Það vantaði aðeins herslumunin hjá heimamönnum að minnka muninn enn frekar og gera frekari atlögu að gestunum. Það var þó stórleikur Zach Allender sem kom í veg fyrir að heimamenn næðu að komast nær gestunum. Zach setti niður mikilvæga þrista þegar mest á reyndi og endaði Allender leikinn með 32 stig og þar af 5 þriggja stiga körfur í aðeins 7 tilraunum. Með Zach í fararbroddi náðu gestirnir aftur góðu forskoti undir lok leiksins og lauk leiknum því með 12 stiga sigri gestanna, 73:85.
Sölmundur Karl Pálsson
Mynd: Rúnar Haukur Ingimarsson – meira á www.runing.com/karfan



