spot_img
HomeFréttirÞórir eftir þriðja árið með Nebraska Cornhuskers "Fann mig vel í því...

Þórir eftir þriðja árið með Nebraska Cornhuskers “Fann mig vel í því sem hann vildi ná út úr leikmönnum”

Fyrir rúmum þremur árum ákvað leikmaður KR, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, að kveðja Íslandsmeistara KR í bili og halda vestur um haf til liðs við Nebraska Cornhuskers, en þeir leika í Big Ten hluta efstu deildar bandaríska háskólaboltans. Með eindæmum sterk deild sem að liðið leikur í og því verið þolinmæðisverk fyrir leikmanninn að komast í stórt hlutverk með liðinu. Fyrsta tímabilið 2017-18 leikur hann aðeins 2 mínútur að meðaltali í leik, 12 mínútur tímabilið eftir 2018-19 og svo er hann kominn í 29 mínútur á því síðasta, þar sem hann er kominn með fast sæti í byrjunarliði liðsins.

Þórir lék á sínum tíma upp alla yngri flokka og með meistaraflokk KR frá 16 ára aldri. Með þeim vann hann tvo bikar og þrjá Íslandsmeistaratitla áður en hann hélt út. Þá var hann valinn besti ungi leikmaður Dominos deildarinnar árið 2017, en á sínu síðasta tímabili fyrir meistarana skilaði hann 10 stigum og 4 fráköstum að meðaltali í leik. Þá hefur Þórir verið hluti af öllum landsliðum Íslands. Var meðal annars besti leikmaður norðurlandameistara Íslands U-18 árið 2017, sem og í tvígang í bronsliði A landsliðsins á Smáþjóðaleikunum 2017 og 2019.

Karfan setti sig í samband við Þóri og spurði hann út í þetta síðasta tímabil og hvernig það hafi verið að leika fyrir fyrrum NBA þjálfarann Fred Hoiberg, sem tók við liðinu fyrir síðasta tímabil.

Hvernig fannst þér ganga hjá þér í vetur með Nebraska?

“Persónulega fannst mér veturinn ganga frekar vel þótt að liðinu hafi gengið frekar brösulega á þessu tímabili. Það voru þjálfaraskipti fyrir tímabilið og ég var eini leikmaðurinn sem varð eftir úr gamla liðinu. Við fengum marga nýja leikmenn og því fylgdi mikil vinna, bæði að kynnast öllum strákunum og að koma okkur öllum á sömu blaðsíðuna”

Hvernig er að æfa og spila með fyrrum NBA þjálfara hjá liðinu?

“Það er mjög gaman að spila fyrir Hoiberg. Hann sýndi mér strax mikið traust sumarið sem hann tók við en ég var búinn að vera íhuga að breyta til eftir þjálfaraskiptin. Ég spilaði mun meira í vetur en ég hafði gert fyrstu tvö árin. Hann leggur mikla áherslu á sóknarleikinn og ég fann mig vel í því sem hann vildi ná út úr leikmönnum”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima, hver er helsti munurinn?

“Já ég myndi segja að það sé töluverður munur á körfunni, bæði leiknum og umgjörðinni. Fyrsta árið var maður mikið að átta sig á hlutunum og reyna koma sér inní þetta. Hraðinn og styrkurinn er á hærra plani en á móti kemur það að spila aftur á móti ungum og óreyndum leikmönnum. Í vetur var ég mikið að spila í fjarkanum og það er eitthvað sem maður þurfti að venja sig á. Annars vill þjálfarinn spila með miklu flæði, líkt og maður er búinn að vera að gera með unglingalandsliðunum undanfarin ár”

Nú er þetta frekar sterk deild sem liðið leikur í og væntanlega mikið af hæfileikaríkum liðum sem þið spilið á móti, hver er eftirminnilegasti leikurinn eða mótherjinn frá þessu síðasta tímabili?

“Já, Big10 var líklega sterkasta deildin í vetur. Það var talað um að 10-11 lið hefðu líklegast komist í March Madness í ár. Við áttum nokkra hörku leiki, t.d. heimasigur gegn Iowa 76-70 og tap á útivelli gegn Maryland 70-72 sem unnu deildina”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði, náðuð þið að klára körfuboltatímabilið og námsönnina?

“Við vorum seinasta liðið til þess að spila leik í deildinni okkar. Við vorum komnir til Indianapolis á úrslitakeppnina í okkar deild og spiluðum á miðvikudagskvöldi gegn Indiana. Við töpuðum þeim leik og þar með var tímabilinu lokið hjá okkur. Morguninn eftir var mótinu aflýst þegar 5 mínútur voru í að næsti leikur hæfist. Eftir að þetta fór að líta alvarlegra og alvarlegra út þá fengum við auka frí vikuna fyrir spring break á meðan skólinn og kennarar undirbjuggu sig fyrir það að klára önnina á netinu. Þegar það var staðfest fengum við bara að fara heim og ég dreif mig aftur til Íslands”

Gerum ráð fyrir að þú farir aftur út næsta haust, hver eru helstu markmiðin körfuboltalega fyrir næsta tímabil?

“Eins og staðan er núna geri ég ráð fyrir því að fara út í byrjun júní. Þá er ég að fara á seinasta árið mitt með það að markmiði að komast í March Madness og vinna þar leik. Skólinn hefur aldrei unnið leik í því móti og það er stærsta markmiðið. Annars vil ég líka bæta minn leik og koma mér í góða stöðu fyrir áframhaldandi körfuboltaferil”

Fréttir
- Auglýsing -