spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÞór vann toppslaginn gegn Vestra

Þór vann toppslaginn gegn Vestra

Eftir sigurinn er Þór nú eitt á toppi deildarinnar með 12 stig en Fjölnir og Vestri fylgja fast á eftir með 10 stig.

Gangur leiks eftir leikhlutum: 21-21 / 24-19 / (45-40) 24-20 / 22-11

Það var spenna meðal áhorfenda og leikmanna fyrir leik Þórs og Vestra sem fram fór í dag og ljóst að það lið sem færi með sigur af hólmi myndi sitja eitt á toppi deildarinnar.

Jafnræði var með liðunum framan af leik og einungis fimm stig skildu liðin að í hálfleik en það átti eftir að breytast svo um munaði í síðari hálfleik.

Eins og kemur fram í viðtali við Pálma Geir í leikslok var þetta erfiður leikur enda létu menn í báðum liðum finna vel fyrir sér og það tók á. Það voru gestirnir sem voru heldur sterkari framan af og náðu í fyrsta leikhluta 7 stiga forskoti 14-21 en Þórsara svöruðu með 7-0 kafla og jafnt var 21-21 þegar annar leikhlutinn hófst.

Gestirnir að vestan skoruðu fyrstu stigin í öðrum leikhluta 21-23 og eftir rúmlega þriggja mínútna leik var þó munurinn eitt stig 26-27. Þá komst Þór yfir á nýjan leik og leiddi það sem eftir lifði leikhlutans og var munurinn frá 1 og upp í 5 stig. Þór vann leikhlutann 24-19 og leiddi með fimm stigum í hálfleik 45-40.

Leikurinn hafði fram til þessa einkennst af mikilli baráttu og líkamlegri nánd eins og Pálmi kom inná og allt leit út fyrir jafnan og spennandi síðari hálfleik.

Þórsliðið kom gríðarlega vel stemmt inn í síðari hálfleikinn og einhverjum hafði fundist eins og leikmenn hafi verið heldur áhugalitlir, þá snérist dæmið við í síðari hálfleik. Þórsarar juku forskotið jafnt og þétt og þegar um ein mínúta lifði af þriðja leikhluta var forskotið orðið 14 stig 69-55. En gestirnir tóku smá kipp á loka mínútu leikhlutans og skoruðu 0-5 og náðu að minnka muninn í 9 stig. Þór vann leikhlutann 24-20 og staðan 69-60 þegar lokakaflinn hófst.

Í fjórða leikhluta héldu Þórsurum engin bönd og gestirnir áttu engin svör við góðri spilamennsku Þórs sem juku forskotið jafnt og þétt og náðu mest 24 stiga forskoti 89-65 þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Á lokasprettinum gaf Lárus ungum leikmönnum spilatíma sem nýtu þann tíma vel og sú reynsla fer í reynslubankann góða.

Þór vann leikhlutann 22-11 og 20 stiga sigur staðreynd 91-71.

Pálmi Geir Jónsson var stigahæstur í dag með 21 stig og 6 fráköst, Ingvi Rafn kom næstur með 18 stig 4 fráköst og 10 stoðsendingar. Kristján Pétur var með 13 stig, Júlíus Orri 12 stig 4 fráköst og 4 stoðsendingar, Larry Thomas 12 stig 5 fráköst og 4 stoðsendingar, Damir Mijic 8 stig og 12 fráköst, Bjarni Rúnar 5 stig 4 fráköst og 3 stoðsendingar og Gunnar Auðunn 2 stig.

Hjá Vestra var André Huges með 20 stig 9 fráköst og 4 stoðsendingar, Hugi Hallgrímsson 15 stig, Nebojsa Knezevic 14 stig, Nemanja Knezevic 13 stig og 19 fráköst, Hilmir Hallgrímsson 4 stig Ingimar Baldursson 4 stig Gunnlaugur Gunnlaugsson 2.

Eftir leikinn í dag sitja Þórsarar einir á toppi deildarinnar með 12 stig en fast á hæla þeirra koma Fjölnir og Vestri með 10 stig hvort. Hamar og Höttur eru svo í 4.-5. sæti deildarinnar með 8 stig hvort.

Í næstu umferð mætast svo Þór og Fjölnir í íþróttahöllinni og þar má búast við jöfnum og skemmtilegum leik ef að líkum lætur. Leikurinn fer fram föstudagskvöldið 30. nóvember og hefst klukkan 19:15.

Slæms hljóð í viðtölum sem orsakast af því að undirritaður gleymdi að stinga hljóðnemanum fína í samband og því fór sem fór, biðst auðmjúkur afsökunar á þessu.

 

Myndaalbúm

 

Umfjöllun, myndir og viðtöl: Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -