spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÞór vann baráttuna um Norðurlandið

Þór vann baráttuna um Norðurlandið

Þór 72 – Tindastóll 65

Síðuskóla 13.nóvember

Tindastólsstelpurnar brugðu sér yfir Öxnadalsheiðina í dag og komu í Síðuskóla til að etja kappi við Þórsstelpurnar í 1. deildinni í körfunni.

Kaflaskiptur leikur svo ekki sé meira sagt en Þórsarar voru sterkari í 1. leikhluta sem og þeim þriðja en Skagfirðingar voru mun grimmari í öðrum leikhluta.  Fjórði leikhlutinn var í járnum en heimamenn höfðu þó betur þegar upp var staðið og hirtu þessi stig sem voru í boði.

Þessi leikur stóð svo sannarlega undir væntingum um baráttu um montréttinn á Norðurlandi.  Lokastaðan var 72 – 65.

  1. leikhluti.

Silvía Rún opnaði leikinn með tveimur vítaskotum sem rötuðu bæði rétta leið í körfuna.   Þórsliðið fékk í kjölfarið önnur tvö víti sem Rut setti einnig ofan í.  Enn unnu Þórsarar boltann eftir gríðarlega ákveðna vörn og komust í ágætis þriggja stiga færi sem geigaði en Rut hirti frákastið, setti boltann ofan í og fékk auk þess eitt víti sem einnig fór rétta leið.

Þórsarar mun grimmari þessar fyrstu mínútur og ná góðum skotum.  Tindastóll hefur reynt ítrekað við þriggja stiga skotin en þau hafa ekki skilað neinu.

Hrefna bætti við þriggja stiga körfu og kom Þórsurum í 10 – 0 þegar 2 : 30 voru búnar af leiknum og Tindastóll sá sæng sína útbreidda og tók leikhlé.

Eftir leikhléð batnaði leikur Tindastóls og náðu þær að brjóta ísinn með þremur stigum en Silvía svaraði að bragði með þriggja stiga körfu.

Enn náði Tindastóll smá áhlaupi enda orðnar mun grimmari bæði í vörn og sókn og Þórsarar þurfa að vera vakandi svo forskot þeirra þurrkist ekki út.  Skagfirðingarnir komnir með muninn niður í 5 stig þegar 34 sekúndur lifa leikhlutans.  13 – 8.  Ekki náðu heimakonur að halda þeim mun eða auka hann á þessari hálfu mínútu því staðan eftir fyrsta leikhluta var 14 – 11 heimastúlkum í vil.

  1. leikhluti.

Þennan leikhluta opnaði Rut með 2ja stiga skoti og jók forystuna sem Ásgerður Jana fylgdi eftir með annarri körfu.  18 – 11

Eftir það opnaðist flóðgátt 3ja stiga karfa en þrjár slíkar frá gestunum og ein frá heimastúlkum voru kærkomnar eftir ótal þriggja stiga tilraunir og munurinn kominn í eitt stig sem svo hvarf eins og dögg fyrir sólu er annað vítið af tveimur sigldi í körfuna frá gestunum.  Í kjölfarið komust svo Tindastóls meyjarnar yfir en þá loksins kom langþráð karfa frá heimaliðinu.  Þrjár mínútur án stiga er ansi dýrt í körfubolta og nýttu Skagfirðingarnir það í góða sveiflu eins og þeim einum er lagið.

Óhætt er að segja það að allt hafi hægt og bítandi fallið meira og meira með Tindastól er leið á annan leikhluta.  Skotin þeirra fóru að rata sína leið á meðan það varð sífellt erfiðara fyrir hvítklæddar heimadömur að koma sér í gott skotfæri og ef það gafst þá klikkaði skotið.  Skyndilega var staðan búin að breytast frá því að vera 18 – 11 í 23 – 33.  Kafli sem fór 5 – 22 fyrir gestunum og rúmar tvær mínútur eftir.

Undir lok leikhlutans tókst heimamönnum að stöðva blæðinguna og halda þannig út leikhlutann.

Hálfleikur.  29 – 39

  1. leikhluti

Smá skjálfti í leikmönnum eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik en eins og í hinum tveimur leikhlutunum opna heimakonur leikinn með 2ja stiga körfum Ásgerðar og Silvíu og svo 3ja stiga karfa frá Hrefnu sem opnar leikinn upp á gátt enda munurinn orðinn 3 stig.  36 – 39.

Óhætt er að segja að þessi byrjun heimastúlkna hafi sett leikinn upp á hærra plan, að minnsta kosti hjá Þórsurum því að barátta og skipulag batnaði um allan helming og skotin fóru að rata í körfuna.  Tindastólsstelpurnar voru þó langt frá því að leggja árar í bát og héldu forystunni áfram í leikhlutanum þó svo að leikur heimamanna hafi batnað verulega.  Í stöðunni 46 – 49 klikkaði skot heimamanna og héldu þær því af stað í vörnina nema hvað Silvía ákvað að heyja baráttu ein síns liðs og hafði betur, hirti boltann, kom sér í færi og skaut og fékk tvö víti áður en liðsfélagar hennar svo mikið áttuðu sig á því að þær voru í sókn.  Vel gert hjá henni.  Setti vítin að sjálfsögðu niður og minnkaði muninn í eitt stig.  Þetta telur allt saman.  Það má eiginlega segja að þessi barátta Silvíu fyrir boltanum hafi snúið leiknum því Þórsarar skoruðu næstu 7 stig og komust í 56 – 49 þegar 38 sekúndur voru eftir.  Bæði lið settu niður körfur á síðustu sekúndum leikhlutans og staðan að honum loknum var 58 – 52.   Þetta var aldeilis viðsnúnigur eftir hörmulegan annan leikhluta heimamanna.  Ljóst er að spennan verður óbærileg í síðasta leikhlutanum.

  1. leikhluti

Fjórði leikhluti hófst ekki fyrr en eftir dúk og disk þar sem leikskýrslan var í einhverju rugli og mikið skrafað og spáð í spilin.  Að lokum hófst þó leikurinn að nýju og enn einu sinni opnuðu heimastúlkur leikinn og það með stæl er Eva hin eitilharða setti snyrtilega niður 3ja stiga körfu og Rut fylgdi á eftir með 2 stigum.  Enn einn leikhlutinn sem heimasætur byrja betur.

7 mínútur eftir og leikurinn enn í járnum 64 – 58.  Áhorfendur sem hafa verið frekar rólegir að minnsta kosti heimamenn, hafa nú tekið við sér og láta vel í sér heyra.  Það má alveg hrósa Skagfirðingum fyrir að hafa stutt sitt lið allan leikinn enda keyrir maður ekki 130 km til að þegja á leiknum.

5 mínútur eftir og eitthvað er miðið byrjað að klikka því einungis voru skoruð 2 stig á þessum 2 mínútum, sem voru heimamanna og staðan því 66 – 58.

Spennan er nánast áþreyfanleg

4 mínútur eftir og munurinn orðinn 10 stig 68 – 58 eftir að tvö vítaskot Rutar fara þangað sem þeim er ætlað að fara.

3 mínútur eftir og munurinn orðinn 6 stig.  68 – 62 Það er ljóst að Tindastóll ætlar ekki að gefa þetta baráttulaust frá sér.  Þær setja svo þrist strax á eftir og koma muninum niður í 3 stig 68 – 65.

Leikhlé hjá heimamönnum.

1:30 og enn eru þrjú stig sem skilja liðin að. Ekkert skorað.  Spennan er óbærileg hjá áhorfendum og leikmönnum.

1 mínúta eftir og munurinn orðinn 5 stig eftir að Hrefna setti tvö víti niður.  70 – 65.  Þetta er alvöru.

Stressið alveg að fara með leikmenn sem kasta knettinum ítrekað í einhverja tóma þvælu.  Sem betur fer fyrir heimamenn á það sama við um gestina og enginn kemst í færi við körfuna.  Silvía setur eitt víti og bætir því aðeins við forskotið, Rut gerir það sama og staðan því 72 – 65 þegar dómarar flauta leikinn af.

Sætur 72 – 65 Þórssigur í hrikalega spennandi leik.

Stigahæst heimamanna var Silvía með 28 stig en hún barðist einnig gríðarlega vel fyrir liðið og var besti maður vallarins að öðrum ólöstuðum.   Hrefna var með 17 stig og Rut 15.

Hjá gestunum var orkuboltinn Tessondra með 27 stig og Valdís með 15.

Tölfræði leiks

Myndir úr leiknum / Palli Jóh 

Viðal við fyrirliðann Rut Herner Konráðsdóttir

Áhorfendur um 200 talsins.

Umfjöllun: Sigurður Freyr

Myndir og viðtal: Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -