Þór tók á móti KFÍ í sínum öðrum heimaleik á þremur dögum í Icelandic Glacial höllinni í kvöld. Liðin áttu misjöfnu gengi að fagna í síðustu umferð, Þór sigraði Snæfell í jöfnum og spennandi leik á meðan að KFÍ steinlá gegn Njarðvíkingum.
Leiknum lauk með átjan stiga sigri heimamanna í Þór, 108-90. Það er þó langt því frá að þessi leikur hafi verið þægilegur fyrir heimamenn, þar sem KFÍ börðust eins og ljón og jafnt var á öllum tölum í fyrri hálfleik.
Joshua Brown sem lék áður með KR er kominn til liðs við Ísfirðinga og fór mikinn fyrir sína menn í kvöld. Hann virtist geta skorað að vild, sérstaklega í fyrri hálfleik og endaði leikinn með 36 stig.
Þórsarar sigldu fram úr Ísfirðingum í þriðja leikhluta og unnu hann með 16 stigum. Staðan fyrir fjórða leikhluta var 77-61 og Þórsarar virtust ætla að sigla sigrinum í höfn. KFÍ tók þó 7-0 áhlaup strax í upphafi leikhlutans gegn hálf kærulausum Þórsurum, en lengra komust þeir ekki. Þórsarar svöruðu af krafti og komu sér í þægilega 20 stiga forystu um miðbik leikhlutans sem þeir létu ekki af hendi.
Mike Cook og Nemanja Sovic voru stigahæstir hjá heimamönnum í kvöld með 33 og 22 stig. Auk þess átti Tómas Heiðar flottan leik, skoraði 17 stig og skilaði 5 stoðsendingum. Raggi Nat skoraði 10 stig og tók 12 fráköst, þar af 8 sóknarfráköst.
Viðtöl
Benedikt Guðmundsson var kátur að leik loknum. „Þetta var hörkuleikur lengi vel, við vorum lengi að losa okkur við þá og þeir spiluðu hörkuvel hérna í kvöld, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við náðum undirtökunum í þriðja leikhluta og vinnum hann með sextán, en fram að því var þetta bara hörkuleikur.
Tveir hörkuleikir bíða Þórsara á næstunni og Benni segist alltaf brattur. „Við eigum Stjörnuna úti næst og svo eru það Haukar í bikarnum, tveir svaka leikir. Stjörnuleikurinn náttúrlega upp á sæti í deildinni og Haukarnir svo í bikarnum, sæti í undanúrslitum í boði þar, þannig að við komum til með að selja okkur dýrt í þessum leikjum, það er alveg klárt.“
Birgir Örn Birgisson – þjálfari KFÍ
Umfjöllun/ Arnar Þór Ingólfsson



