spot_img
HomeFréttirÞór Þorlákshöfn-KR leikur 2: Þórsarar jöfnuðu með stórsigri

Þór Þorlákshöfn-KR leikur 2: Þórsarar jöfnuðu með stórsigri

Önnur viðureign KR og Þórs Þorlákshafnar stendur nú yfir í Icelandic Glacial Höllinni í Þorlákshöfn. Staðan í einvíginu er 1-0 KR í vil en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslit.
– Leik lokið: 94-76 fyrir Þór. Staðan er því 1-1 í einvíginu. Govens 30, Guðmundur 17. Hjá KR var Brown með 19 og Ferguson 15.
 
– 1.27mín eftir af leiknum: 92-70 fyrir Þór. Darri Hilmars að fara af velli með fimm villur, kappinn var villulaus fyrstu 27 mínútur leiksins. 
 
– 2.34mín eftir af fjórða: 92-68 fyrir Þór og eitthvað segir okkur að KR-ingar bíði nú spenntir eftir leik 3.
 
– 4.15mín eftir af fjórða: 92-61 fyrir Þór og Govens dottinn í 30/5/5… ekki amalegt dagsverk.
 
– 5.36mín eftir af fjórða: 88-59 fyrir Þór og þetta er fyrir löngu búið en samt þverskallast báðir þjálfarar liðanna við að hafa byrjunarliðin inná.
 
– 7.56mín eftir af fjórða: 84-55 og 11-4 byrjun Þórs á leikhlutanum. Þetta er búið, bara spurning um lokatölur enda er enga miskunn að sjá á Þórsurum. Spurning hvort menn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir setja ,,buzzera" yfir Þór. 
 
– 8.33mín eftir af fjórða: 79-55 fyrir Þór, Gummi Jóns að setja þrist og heimamenn eru bara að ,,trúða" KR hérna.
 
– Þriðja leikhluta lokið: 73-51 fyrir Þór. Heimamenn unnu þriðja leikhluta 24-18 og hér stefnir allt í stóran og öruggan sigur. Govens með 23 hjá Þór og Brown 14 hjá KR.
 
– 1.00mín eftir af þriðja: 71-47 fyrir Þór. 
 
– 3.18mín eftir af þriðja: Darri Hilmarsson að fá sína fyrstu villu í liði Þórs. Það er athyglisvert í meira lagi og kappinn nú búinn að fá að leika smá lausum hala hér á heimavelli gegn uppeldisfélaginu en hvað sem öllum villum líður er Darri að eiga stórgóðan leik.
 
– 3.36mín eftir af þriðja: 68-45… Govens að skella niður þrist fyrir Þór. KR á bara ekki séns í þetta, heimamenn eru funheitir og hreinlega búnir að kreista allan vilja úr gestum sínum. 
 
– 4.30mín eftir af þriðja: 63-42 og Gummi Jóns að setja þrist fyrir Þór. Hér er um einstefnu að ræða og vesturbæingar eru andlausir í besta falli.
 
– 6.50mín eftir af þriðja: 58-39 fyrir Þór. Gummi Jóns og Govens beittir í liði Þórs hér í upphafi síðari hálfleiks.
 
– Síðari hálfleikur að hefjast… ætli KR hafi fundið lausnina við varnarleik Þórs hér í hálfleiknum?
 
– Snemma beygjist krókurinn í Þorlákshöfn því hér í Icelandic Glacial Höllinni fór fram brjóstagjöf. Hvort upprennandi leikmaður sé hér að fá kvöldverðinn eða verðandi meðlimur græna drekans skal ósagt látið en nokkuð víst er að annað hvort verður það. Heimabrugg eins og þeir á NBA Ísland myndu vísast kalla þetta.
 
– Skotnýting liðanna í hálfleik:
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 57,8%, þriggja 37,5% og víti 81,8%
KR: Tveggja 34,7%, þriggja 30% og víti 57,1%
 
– Hálfleikur: 49-33 fyrir Þór sem hafa verið mun betri hér í fyrri hálfleik. Govens kominn með 16 stig og Darri 11. Hjá KR er Martin Hermannsson með 7 stig. 
 
– 1.25mín eftir af öðrum: Govens að koma Þór í 47-31 á vítalínunni.
 
– 2.14mín eftir af öðrum: 43-31 fyrir Þór. Martin að setja tvö víti fyrir KR, vesturbæingar enn í svæðisvörn og hún gengur þokkalega, amk betur en maður á mann vörn þeirra en í upphafi leiks. 
 
– 3.29mín eftir af öðrum: 39-27 fyrir Þór. Heimamenn rönkuðu við sér á ný eftir að Martin Hermannsson hafði sett svellkaldan þrist í andlitið á þeim. 
 
– 4.57mín eftir af öðrum: 35-22 fyrir Þór, KR taka hér 6-0 dembu og Benedikt tekur leikhlé fyrir Þórsara sem hafa síðustu mínútur verið að ,,ströggla" gegn svæðisvörn gestanna.
 
– 5.50mín eftir af öðrum: KR-ingar eru komnir í svæðisvörn og staðan 35-20 fyrir Þór.
 
– 6.59mín eftir af öðrum: 35-16 fyrir Þór og KR tekur leikhlé, Þórsarar opna þennan annan leikhluta 11-4 og röndóttir ráða ekkert við Govens. Sóknarleikur KR er tilviljanakenndur og vesturbæingum sárvantar einhvern til að stíga upp ekki mikið seinna en akkúrat núna.
 
– 7.36mín eftir af öðrum: 31-15 fyrir Þór, Gummi Jóns að drita niður þrist og þeir vilja niður hjá heimamönnum, eru 6 af 11 í þristum það sem af er leik.
 
– 8.40mín eftir af öðrum: 28-15 Baldur Þór að brjótast í gegn fyrir Þór, skoraði og fékk villu að auki en brenndi af vítinu.
 
– Fyrsta leikhluta lokið: 24-12 fyrir Þór. Govens með þrist þegar 2 sek voru eftir af leikhlutanum. Govens er með 10 stig hjá Þór en Sencanski 4 hjá KR. Nýtingin í teignum er að fara illa með KR, 3 af 11 í fyrsta leikhluta.
 
– 29sek eftir af fyrsta: 19-11 fyrir Þór, Brown loks kominn á blað í liði KR með 2 stig en þessar fyrstu 10 mínútur leiksins hafa verið afar bragðdauar hjá þessum magnaða bakverði.
 
– 2.10mín eftir af fyrsta: 15-7 fyrir Þórsara. Lítið gengur hjá gestunum. Henley mættur á völlinn í liði Þórs og byrjaði á því að rífa niður frákast. 
 
– 3.48mín eftir af fyrsta: Gummi Jóns að fá sína aðra villu í liði Þórs. Stundum finnst okkur eins og íslenskum körfuknattleiksdómurum sé ekki vel við hann.
 
– Leikhlé í gangi… KR er 1/7 í teignum
 
– 4.00mín eftir af fyrsta: Govens að koma Þór í 11-5 með þrist! Gestirnir úr vesturbænum búnir að brenna af fjórum fyrstu vítunum sínum í leiknum. 
 
– 6.00mín eftir af fyrsta: 5-5 og röndóttir jafna en liðunum gengur illa að finna körfuna hérna á upphafsmínútunum.
 
– 7.00mín eftir af fyrsta: 5-0 byrjun hjá heimamönnum í Þór.
 
– Nýji maðurinn Henley byrjar á bekknum hjá Þór en það líður ekki á löngu þangað til við sjáum úr hverju kappinn er gerður.
 
– Byrjunarliðin: 
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens, Guðmundur Jónsson, Darri Hilmarsson, Grétar Ingi Erlendsson og Blago Janev
KR: Joshua Brown, Emil Þór Jóhannsson, Dejan Sencanski, Finnur Atli Magnússon og Robert Ferguson.
 
– Dómarar leiksins eru Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson. 
Fréttir
- Auglýsing -