Skallagrímur tók á móti Þór Þorlákshöfn í Borgarnesi síðastliðið föstudagskvöld í 1. deild karla. Heimamenn byrjuðu sterkt í leiknum og komust í 13-5 en þá vöknuðu gestirnir og skoruðu 14 stig í röð og staðan orðin 13-19. Gestirnir tóku svo annað áhlaup strax á eftir og staðan eftir 1. leikhluta var 19-27 gestunum í vil.
Skallarnir komu brjálaðir til leiks í 2. leikhluta og voru að spila flotta vörn. Gestirnir sáu ekki til sólar í leikhlutanum. Þeir minnkuðu muninn jafnt og þétt. Þegar mínúta var eftir komust þeir loks yfir og staðan í hálfleik 45-40 fyrir heimamenn. Darrel Flake var öflugur hjá Sköllunum í fyrri hálfleik 17 stig og 9 fráköst en hjá Gestunum var Philipe Perre með 16 stig og 9 fráköst.
3. leikhluti fór vel af stað fyrir bæði lið og liðin skiptust á að skora og heimamenn alltaf með 3-7 stiga forskot fram eftir leikhlutanum en þegar líða tók á þá komu gestirnir betur inn í leikinn og komast yfir áður en að leikhlutinn var úti. Staðan eftir leikhlutan var 58-60 fyrir gestina.
Liðin skiptust á körfum og forystu í 4. leikhluta. Mikil spenna var í leiknum og jafnt á öllum tölum. Aldrei meira en 4 stiga munur. Þegar að um 4 mínútur lifðu af leiknum gerðist lítið og mikið um mistök hjá liðunum. Þórsarar voru þó sterkari á lokasprettinum og kláruðu þennan leik með sigri. Lokastaðan í leiknum var 76-81 fyrir gestina úr Þorlákshöfn. Þetta var hörkuleikur tveggja frábærra liða.
Hjá heimamönnum var Hafþór Gunnarsson 22 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Flake 19 stig, 17 fráköst og aðeins 2 stig í seinni hálfleik og munar nú um minna. Matt Zowa 14 stig, 11 fráköst. Halldór Jónsson 7 stig og Birgir Sverrisson með 6 stig.
Atkvæðamestir gestana voru Philip Perre var með 24 stig, 12 fráköst. Eric Palm 23 stig, 5 fráköst. Hjalti Valur var með 15 stig. Vladimir Bulut 12 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Baldur Þór var með 5 stig og 7 fráköst.
Þetta var síðasti leikur þessara liða fyrir jólafrí. Eftir leikinn er Þór enn taplaust á toppnum með 18 stig eftir 9 leiki. En Skallagrímur er 4. Sæti með 10 stig og 5 sigurleiki og 4 tapleiki.
Ljósmynd/ Sigga Leifs: Hafþór Ingi gerði 22 stig hjá Sköllunum á föstudag.
Umfjöllun: Finnur Andrésson




