spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÞór lagði Fjölni í toppbaráttu 1. Deildar

Þór lagði Fjölni í toppbaráttu 1. Deildar

Þórsarar lögðu Fjölni öðru sinni í vetur í gærkvöldi þegar liðin mættust í 8. umferð 1. deildar karla í körfubolta í leik sem fram fór í íþróttahöllinni. Líkt og þegar liðin mættust í fyrstu umferð á heimavelli Fjölnis var leikurinn jafn og spennandi allt frá fyrstu mínútu til loka leiks. Lokatölur Þór 87 Fjölnir 81.

Leikmenn Þórs byrjuðu leikinn með látum og komust strax í 8-0 strax á fyrstu mínútu leiksins og eftir 7 mínútur var staðan 21-13. En þá svöruðu gestirnir með 0-5 kafla og komu muninum niður í 3 stig þegar annar leikhluti hófst. Þór vann leikhlutann 21-18.

Gestirnir komu sterkari inn í annan leikhlutann og eftir þrjár mínútur var munurinn aðeins eitt stig 26-25. Þá vöknuðu heimamenn upp af stuttum værum blundi og gáfu aftur í og juku muninn upp í 8 stig um tíma. Þegar leikhlutinn var u.þ.b. að renna sitt skeið var munurinn 5 stig 43-38 og Þór með boltann og rétt innan við 2 sekúndur eftir. Þórsarar taka innkast og Larry fer upp og setur niður flautu þrist, en eftir skoðun dómara á upptöku eru stigin þrjú tekin af Þór og staðan í hálfleik því 43-38. Þór vann leikhlutann 22-20.

Fjörugur fyrri hálfleikur að baki þar sem Þórsliðið barðist vel og viljinn hjá þeim virtist meiri en hjá gestunum og fimm stiga forskot í hálfleik var síst of stórt. Mikil barátta beggja liða og allt stefndi í skemmtilega seinni hálfleik, eins og kom á daginn.

Gestirnir hófu síðari hálfleikinn vel og eftir innan við tveggja mínútna leik höfðu Fjölnismenn komist yfir í fyrsta sinn í leiknum 43-44. Þórsarar bættu svo aftur í og næstu mínútur voru hníf jafnar og bráðskemmtilegar en Þórsarar samt skrefinu á undan. Leikmenn beggja liða gáfu allt í leikinn og hvorug liðið ætlaði sér sigur. Fjölnir náði svo aftur að jafna leikinn 52-52.

Rétt eins og fyrr þá ná heimamenn aftur forskotinu en leiddu mest með 5 stigum 59-54. Og þá snýst leikurinn aftur við og gestirnir komast yfir 59-60 þegar tvær og hálf mínúta lifa leikhlutans. Þegar um 20 sekúndur lifa leikhlutans leiða gestirnir með einu stig 61-62 en þegar um 8 sekúndur voru eftir stelur Damir boltanum kemur honum á Júlíus Orra sem lokar leikhlutanum með körfu tveim sekúndum fyrir loka leikhlutans. Fjölnir vann leikhlutann 20-24 en Þór leiðir með einu stigi þegar lokakaflinn hófst.

Loka fjórðungur leiksins var jafn og æsispennandi og óhætt að segja að áhorfendur hafi fengið hina bestu skemmtun. Liðin skiptust á að leiða með 1-2 fram í miðjan leikhlutann. Í stöðunni 70-68 fyrir Þór náðu heimamenn betri tökum á leiknum og sigldu fram úr þótt ekki mjög langt.

Þegar um þrjár mínútur lifðu leiks var forskotið orðið 8 stig 76-69. Síðustu mínútur leiksins lögðu bæði lið allt undir. Fjölnismenn reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna leikinn en heimamenn þéttu vörnina svo um munar og menn köstuðu sér á alla bolta. Þórsarar voru skynsamir og unnu leikhlutann með 5 stigum og lönduðu sex stiga sigri 87-81.

Gangur leiks eftir leikhlutum 21-18 /22-20 (43-38) 20-24 / 24-19.

Leikurinn í heild var bráðfjörugur og leikmenn beggja liða gáfu allt í leikinn en Þórsarar voru þó heldur sterkari og sigurinn sanngjarn og stigin sex sem skildu liðin að endurspegla ágætlega muninn á liðunum í kvöld.

Í liði Þórs var Júlíus Orri hreint út sagt frábær í kvöld. Drengurinn skoraði 23 stig tók 9 fráköst og var með 5 stoðsendingar og einn stolinn bolta og 28 í framlag. Næstur kom Larry Thomas með 22 stig og 7 fráköst, Pálmi Geir var traustur að vanda með 19 stig. Bjarni Rúnar var með 9 stig og 5 fráköst. Damir var með 8 stig og 16 fráköst og Ingvi Rafn 6 stig 8 fráköst og 4 stoðsendingar.

Hjá Fjölni var Anton Olonzo með 30 stig og 14 fráköst, Srdan Stojanovic 22 stig og 8 fráköst, Vilhjálmur Theodór 9 stig og 7 fráköst, Davíð Guðmundsson og Egill Agnar 5 stig hvor. Þá voru þeir Rafn Kristján, Hreiðar Bjarki og Andrés Kristleifs með 2 stig hver.

Tölfræði leiks 

Eftir leik gærkvöldsins eru Þórsarar nú einir á toppi deildarinnar með 14 stig eftir 8 leiki en Fjölnir, Vestri og Hamar eru í 2. – 4. sæti deildarinnar með 10 stig. Vestri á þó leik til góða á Fjölni og Hamar.

Heyrum hvað þeir Júlíus Orri og Lárus Jónsson höfðu að segja í leikslok

Lárus: 

Júlíus: 

 

Myndir / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -