Þór Akureyri er bikarmeistari í 9. flokki karla eftir sigur á Stjörnunni í hörkuviðureign. Lokatölur voru 49-55 Þór í vil. Júlíus Orri Ágústsson var valinn Lykil-maður leiksins í liði Þórs en hann gerði 25 stig, tók 9 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og var með 4 stolna bolta í leiknum.
Fyrsti leikhluti gaf góð fyrirheit um spennuleik, liðin skiptust á forystunni enda þekktir spennuslagir milli þessara liða á Íslandsmótinu. Júlíus Orri Ágústsson fór fyrir Akureyringum með 7 stig í fyrsta leikhluta en þeir Dúi Þór með 5 í liði Stjörnunnar. Garðbæingar fengu smá fyrir hjartað í fyrsta leikhluta þegar styðja þurfti Ingimund Jóhannsson af velli sem meiddi sig á ökkla en það hélt honum ekki fjarri og var hann mættur strax í annan leikhluta. Þór leiddi 11-12 eftir fyrsta hluta.
Varnarleikur Stjörnunnar var flottur í öðrum leikhluta og Garðbæingar náðu forystunni og leiddu 25-20 í hálfleik þar sem Dúi Þór og Árni Gunnar voru báðir með 9 stig í liði Stjörnunnar en Júlíus Orri með 9 stig í liði Þórs.
Eitthvað voru menn feimnir við að skora framan af síðari hálfleik en Þórsarar tóku á rás, gerðu átta stig í röð og með hverri sekúndunni óx þeim ásmegin í varnarleiknum. Allir mættir að berjast fyrir hvern annan og Garðbæingar áttu í mesta basli með að skora enda gerðu þeir bara tvö stig á fyrstu sex mínútum leikhlutans. Kolbeinn Fannar átti flotta spretti í þriðja leikhluta hjá Þór en hann lauk leik með 9 stig og 15 fráköst.
Í fjórða leikhluta voru Þórsarar við stýrið, Stjörnumenn voru aldrei út úr leiknum en heldur ekki nægilega þolinmóðir í mörgum af sínum aðgerðum og misstu boltann á viðkvæmum stundum. Þeir Ingimundur og Dúi settu tvo þrista og náðu að minnka muninn fyrir Stjörnuna í 49-53 þegar 11 sekúndur lifðu leiks en lengra komust þeir ekki og Þórsarar með sterka liðsheild og Júlíus í broddi fylkingar unnu öflugan 49-55 sigur á Stjörnunni.
Þess má geta að Þór er ríkjandi Íslands- og nú bikarmeistari í þessum árgangi undir stjórn Ágústar H. Guðmundssonar.




