Þór Akureyri og Stjarnan mættust í úrslitum 9. flokks karla í dag þar sem Þórsarar fögnuðu Íslandsmeistaratitli með 64-46 sigri á Stjörnunni. Garðbæingar gerðu vel í þriðja leikhluta og hleyptu verulegri spennu í leikinn en Þórsarar með Júlíus Orra Ágústsson í broddi fylkingar sigldu heim öruggum sigri með vaskri frammistöðu á lokasprettinum. Júlíus var síðan valinn besti maður úrslitaleiksins með 19 stig, 9 stoðsendingar og 8 fráköst.
Þórsarar höfðu undirtökin í fyrri hálfleik, léku þétta vörn og leiddu 36-23 að loknum fyrri hálfleiknum þar sem Sindri Már Sigurðarson var með 11 stig í hálfleik hjá Þórsurum en Ingimundur Orri Jóhannsson var með 8 stig hjá Stjörnunni.
Eftir aðeins fáar sekúndur í síðari hálfleik fengu Stjörnumenn dæmda á sig tæknivillu og það virtist koma við kauninn í þeim því Garðbæingar ruku af stað og unnu þriðja leikhlutann 7-15. Varnarleikur Stjörnunnar small saman í leikhlutanum og bláir minnkuðu muninn í 37-36 eftir þrist frá Helga Jónssyni en Þórsarar náðu að slíta sig aðeins frá fyrir fjórða leikhluta og leiddu 43-38 fyrir lokasprettinn.
Eins og þriðji var góður hjá Garðbæingum þá var fjórði eign Norðanmanna þar sem Júlíus Orri Ágústsson settist við stýrið og lóðsaði Þórslestinni í átt að sigri. Þórsarar hafa á að skipa öflugu liði og Júlíus þeirra helsti maður fer afar vel með leiðtogahlutverkið og sterkur í að virkja sína menn enda með 9 stoðsendingar í dag. Þá átti Baldur Örn Jóhannesson einnig góðan dag í liði Þórs með 13 stig og 11 fráköst en Garðbæingum gekk illa að hemja hann í námunda við körfuna.
Hjá Stjörnunni var Dúi Þór Jónsson atkvæðamestur með 17 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar og Ingimundur Orri Jóhannsson bætti við 14 stigum, 5 fráköst og 3 stoðsendingum.
Myndir og umfjöllun/ Jón Björn