spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÞór Akureyri ekki ryðgaðar gegn ÍR

Þór Akureyri ekki ryðgaðar gegn ÍR

ÍR tók á móti Þór Akureyri í Hertz-hellinum í dag kl.17:00. Þór hafði aðeins spilað 4 leiki á tímabilinu hingað til og unnið þrjá þeirra fyrir þennan á meðan að ÍR-ingar höfðu unnið tvö leiki og tapað fimm. Engin teljanleg meiðsli voru hjá liðunum þó að Þór Akureyri saknaði að sjálfsögðu Unnar Láru sem er í barneignaleyfi. Það var vel mætt á leikinn eftir því sem á leið þó að stigaskorið hafi ekki verið upp á marga fiska í byrjun leiks. Byrjunarlið Þórsara var miklu betra í leiknum og gestirnir unnu öruggan sigur, 43-55.

Gangur leiksins

Leikurinn byrjaði heldur stamur hjá heimastúlkum vegna þess að Þór hóf leik á því að spila svæðisvörn og eftir 3 mínútur og 6 stig hjá gestunum tók Ólafur Jónas, þjálfari ÍR, leikhlé. ÍR-ingar gátu loks sett sín fyrstu stig eftir það og komust aðeins betur af stað. Þór hélt þó áfram að skora en ÍR gat saxað aðeins á þær svo staðan var 7-10 eftir fyrsta fjórðung.

ÍR setti mikla orku í vörnina í öðrum leikhlutanum þannig að þær voru komnar með 5 liðsvillur eftir 5 mínútur gegn engum villum hjá Þór. Gestirnir gátu þó vel skorað áfram og þrátt fyrir fjölmarga tapaða bolta hittu þær rauðklæddu betur en Breiðhyltingar. Skotnýting skildi liðin að fyrstu 20 mínúturnar og staðan var því 20-36 í hálfleik.

Þórsarar héldu áfram að rúlla í seinni hálfleik undir dyggri forystu Sylvíu, en hún stal 4 boltum fyrstu 3 mínútur leiksins áður og Ólafur Jónas sá sig tilneyddan að taka annað snemmbúið leikhlé. Það skilaði sér þó ekki alveg strax enda tók það ÍR næstum því 7 mínútur að skora fyrstu stigin sín í leikhlutanum. Gestirnir höktu aðeins eftir það og ÍR gat skorað nokkur stig fyrir lokaleikhlutann. Staðan fyrir seinasta fjórðunginn var 28-46.

Lítið breyttist í fjórða leikhlutanum og Þór hélt áfram að spila vel gegn heimaliðinu. Þegar Helgi Rúnar, þjálfari Þórs, skipti bekknum inn á undir lokin þá gátu varamenn ÍR aðeins lagað stöðuna með 8 stiga áhlaupi á lokamínútunum. Það var hins vegar of seint í rassinn gripið og hafði ekki meiri áhrif en svo að lokastaðan varð 43-55, Þór Akureyri í vil.

Lykillinn

Sylvía Rún Hálfdanardóttir og Rut Herner Konráðsdóttir voru mikilvægar fyrir sitt lið, en þær gátu einhvern veginn alltaf skorað þegar liðið þeirra þurfti á því að halda. Sylvía Rún lauk leik með 23 stig, 17 fráköst, 7 stolna bolta og 9 fiskaðar villur. Rut skoraði 14 stig og tók 10 fráköst og var með +29 í plús/mínus tölfræði sinni. Hjá ÍR var Birna Eiríksdóttir stigahæst með 11 stig.

Tölfræðin

ÍR átti mjög slakan skotleik, en þær hittu aðeins úr 23,4% skota sinna utan af velli. Flestir aðrir tölfræðiþættir voru temmilega jafnir, en Þór Akureyri tóku reyndar mun færri skot utan af velli (61 gegn 77 skotum hjá ÍR) en fengu nóg af vítaskotum. Þórsstúlkur tóku 23 víti í leiknum á meðan að ÍR tók ekki eitt einasta víti í fyrri hálfleik og aðeins 7 vítaskot á heildina í öllum leiknum. Bekkur ÍR-inga skoraði líka 36 af 43 stigum liðsins síns. Afleit frammistaða hjá byrjunarliðinu.

Kjarninn

ÍR voru ekki tilbúnar í svæðisvörn Þórs á meðan að Þór sýndi þess engin merki að hafa seinast keppt leik 13. nóvember! Þór Akureyri manaði ÍR til að vinna sig með skotum og ÍR gat ekki refsað svæðisvörn Þórs með því að setja skotin sín. Flott útspil hjá Þór sem sótti sigur með þessu. Bekkur ÍR fær hrós fyrir að hafa sýnt þjálfaranum að byrjunarliðið var mögulega ekki rétt valið í þessum leik.

Samantektin

Þór Akureyri er þá með 4 sigra og eitt tap eftir aðeins 5 leiki á tæpum tveim mánuðum. ÍR eru í næst neðsta sætinu fyrir ofan Hamar með tvo sigra og 6 töp.

Tölfræði leiks

Viðtöl eftir leik

Umfjöllun, mynd úr leik og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -