spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÞór á toppinn eftir sigur gegn Hamri-Þór

Þór á toppinn eftir sigur gegn Hamri-Þór

Óhætt er að segja að sveiflurnar í leik Þórs og Hamars-Þórs hafi verið hálf öfgakenndar þar sem Þór var nærri því að kasta frá sér sigrinum eftir að hafa leitt með 22 stigum í hálfleik.

Þór hafði unnið sex leiki í röð þegar að leiknum í kvöld kom og freistuðu þess að bæta sjöunda sigrinum við þegar liðið tók á móti Hamri-Þór. Það leit vissulega vel út framan af en leikurinn byrjaði rólega en Þór leiddi með sex stigum eftir fyrsta leikhluta 20:14.

Þór hóf annan leikhluta með miklum látum og ljóst að liðið ætlaði sér að taka stigin tvö sem í boði voru. Leikmenn Þórs geisluðu og léku við hvurn sinn fingur með góðum sóknarleik og þéttri og góðri vörn. Þór vann leikhlutann með 16 stigum og leiddi í hálflleik með 22 stigum 50:25.

Í liði Þórs voru þær Maddie (14) og Eva Wium (13) drjúgar og Tuba með 8 stig. Hjá gestunum var Hildur Björk með 7 stig og þær Ragnhildur, Emma Hrönn og Yvetta með 5 stig hver.

Leikurinn í fyrri hálflleik var heldur ójafn og bjuggust nú flestir við að Þór myndi láta kné fylgja kviði og bæta heldur í en að gefa eftir. En fyrir heimamenn snérist leikurinn svo sannarlega við meir en menn grunaði að gæti gerst. Gestirnir tóku að saxa hægt og bítandi á forskot Þórs. Um leið og sóknarleikur gestanna tók jákvæðan kipp tók hægt og bítandi að fjara undan leik Þórs. Gestirnir unnu þriðja leikhlutann með fjórum stigum 18:22 og munurinn þó enn 18 stig þegar fjórði leikhlutinn hófst 68:50.

Í fjórða leikhluta gekk ekkert upp hjá Þór og gestirnir gengu svo sannarlega á lagið og í hönd fóru alveg ótrúlegar loka mínútur. Þegar um ein mínúta lifði leiks höfðu gestirnir jafnað leikinn 72:72 en Þór hafði leitt allt frá því staðan var 14:14.

Eva Wium kom svo Þór yfir 73:72 af vítalínunni þegar klukkan sýndi 39:25. Þegar níu sekúndur voru eftir kom Jenna Christina gestunum yfir 73:74 og Daníel tekur leikhlé.

Þegar fjórar sekúndur voru eftir kom Maddie Þór yfir 75:74 og fékk víti að auki þar sem brotið var á henni í skotinu. Maddie gerði engin mistök á vítalínunni 76:74 og tvær sekúndur eftir af leiknum. Gestirnir byrja með boltann en Maddie komst inn í sendingu Jennu Christinu og tíminn rann út og Þór fangaði tveggja stiga sigri 76:74 í hreint ótrúlegum leik.

Þórsliðið lék afspyrnu illa í seinni hálfleik og var liðið hársbreidd frá því að kasta sigrinum frá sér í lokin en sluppu með skrekkinn. Það getur verið dýrt að leika sér að eldinum eins og stundum er sagt og í kvöld „skall hurð nærri hælum“.

Í liði Þórs bar mest á Maddie, Evu Wium, Heiðu Hlín og Tubu.Hjá gestunum var Jenna Christina mjög góð sem og Yvetta Adriaans.

Framlag leikmanna Þórs: stig/fráköst/stoðsendingar. Maddie 23/12/4, Eva Wium 21/3/1, Heiða Hlín 10/8/2, Tuba Poyraz 9/15/6, Emma Karólína 5/1/1, Rut Herner 4/3/1, Karen Lind 4/2/0, Hrefna 0/5/0 og Vaka Bergrún spilaði einnig en komst ekki á blað að þessu sinni.

Framlag leikmanna Hamars-Þórs: stig/fráköst/stoðsendingar. Jenna Christina 23/13/5, Yvetta Adriaans 19/9/4, Hildur Björk 9/5/2, Emma Hrönn 8/5/6, Ragnhildur Arna 7/4/0, Helga María 3/1/2, Gígja Rut 3/2/0 og Jóhanna Ýr 2/2/0.

Gangur leiks eftir leikhlutum: 20:14 / 30:14 (50:28) 18:22 / 8:24 = 76:74

Nánari tölfræði

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -