spot_img
HomeFréttirÞjálfararnir vilja fleiri leiki í kvennaboltanum

Þjálfararnir vilja fleiri leiki í kvennaboltanum

Á ársþingi Körfuknattleikssamband Íslands árið 2007 var samþykkt að breyta keppnisfyrirkomulaginu í efstu deild kvenna. Horfið var frá því umhverfi að leika fjögurra liða úrslitakeppni strax að lokinni deildarkeppni í að skipta upp deildinni í A og B riðil á miðju tímabili. Þá voru tvö efstu liðin að lokinni riðlakeppni látin sitja hjá og lið 3-6 leika í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Mönnum hefur orðið tíðrætt um núverandi fyrirkomulag og sitt sýnist hverjum. Nú gengur í garð lokaspretturinn í deildarkeppninni og skammt að bíða úrslitakeppninnar. Því ekki úr vegi að kanna hug þjálfaranna sem stjórna liðunum í Iceland Express deildinni til núverandi keppnisfyrikomulags.
Karfan.is setti sig í samband við alla þjálfarana í úrvalsdeild kvenna og markmiðið var að reyna að endurspegla hug þjálfaranna til núverandi fyrirkomulags sem langt er komið á sitt annað tímabil. Eitt voru allir sammála um og það var að allir þjálfarar í deildinni vildu fleiri leiki og flestir vildu sjá 10 liða deild.
 
Þjálfarar í úrvalsdeild kvenna sem Karfan.is ræddi við:
KR – Benedikt Guðmundsson
Grindavík – Jóhann Ólafsson
Keflavík – Jón Halldór Eðvaldsson
Hamar – Ágúst Sigurður Björgvinsson
Haukar – Henning Henningsson
Njarðvík – Unndór Sigurðsson
Snæfell – Ingi Þór Steinþórsson
Valur – Ari Gunnarsson
 
Ágúst Sigurður Björgvinsson þjálfari Hamars sagði í samtali við Karfan.is að vissulega hefði keppnisfyrirkomulagið sína kosti og galla en aðalmarkmiðið hefði verið að fjölga liðunum úr 6 í 8 í deildinni.
,,Fleiri lið spila nú í efstu deild og þar af leiðandi eru fleiri leikmenn að æfa og spila í deildinni. Persónulega myndi ég samt vilja sjá í nánustu framtíð 10 liða deild þar sem spiluð er tvöföld umferð og 8 liða úrslitakeppni,“ sagði Ágúst og var alls ekki einn um þá skoðun meðal starfsbræðra sinna í Iceland Express deild kvenna.
 
Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur er síður en svo sáttur við núverandi keppnisfyrirkomulag og segir viðlíka umgjörð hafa næstum riðið handboltanum að fullu. ,,Mér finnst þetta hafa verið fullreynt af HSÍ og skili ekki neinu. Þetta átti að fjölga leikjum og það mistókst alveg því leikjunum fækkaði um fjóra, úr 24 í 20. Ef við skoðum deildina í dag þá er sorglegt að vera með þetta tvískipt, KR – UMFG – Hamar – Keflavík og Haukar eru öll með hörkulið og eru leikir þessara liða mikil skemmtun og svo ef við tökum Njarðvík, Val og Snæfell, ég get ekki sé að þessi lið séu langt á eftir hinum, síður en svo. Keflavík tapaði til dæmis fyrir Val í vetur, svo töpuðu Haukar fyrir Njarðvík og Njarðvík vann Hamar og svo er talað um að þetta fyrirkomulag ætti að vernda lakari liðin fyrir því að tapa stórt dag eftir dag. Þetta var kannski þannig, en í dag er þetta algjörlega búið að missa marks,“ sagði Jón sem vill eina deild með fjórfaldri umferð.
 
,,Þetta er eitthvað sem að við þurfum að breyta sem fyrst og vera með eina deild og spila þetta fjórfalt, þá fáum við 28 leiki plús úrslitakeppni. Núna er það einfaldlega þannig að leikir liða í neðrihlutanum fá minni athygli en leikir í efrihluta deildarinnar, hvað vinnum við með því?“ spyr Jón en að sama skapi eru þjálfarar á borð við Inga Þór Steinþórsson og Henning Henningsson sáttir við fyrirkomuleagið. Ingi vill sjá fleiri lið og vill fá fleiri leiki og segir núverandi fyrirkomulag henta vel til að gefa liðunum möguleika á fleiri leikjum við sitt hæfi. Henning Henningsson þjálfari Hauka tekur undir með Inga og er sáttur við fyrirkomulagið og segir að komið sé í veg fyrir að lakari liðin séu að tapa stórt gegn góðu liðunum.
 
,, Margir gætu haldið að þetta auki bilið á milli góðra og lakari liða, en ég er ekki þeirrar skoðunar því að í lakari liðunum eru oftar en ekki ungir leikmenn sem fá hörku leiki á seinni hluta tímabilsins gegn álíka sterkum liðum og þær sjálfar spila með,“ sagði Henning sem segir aðalatriðið þó vera að öll lið fái leiki sem skipti miklu máli.
 
Jóhann Ólafsson þjálfar nú í efstu deild kvenna í fyrsta sinn en hann stýrir Grindavíkurkonum og hefur leitt þær upp í 2. sæti deildarinnar. Jóhann segir vel hægt að færa rök fyrir því að deildarfyrirkomulagið ætti að vera áfram eins og það sé í dag. ,,Mér finnst þetta alveg í lagi, það er kannski líka af því að ég þekki ekkert annað því þetta er mitt fyrsta ár og ég hef því engan samanburð,“ sagði Jóhann sem veigrar sér og öðrum við því að setja fram gagnrýni á núverandi fyrirkomulag séu menn ekki með aðrar og betri lausnir.
 
,,Mér finnst helvíti hart ef menn eru að gagnrýna núverandi fyrirkomulag og vera ekki með aðrar og væntanlega betri lausnir. Það sem mér hefur fundist lélegt í vetur er hversu langt líður milli leikja. Kannski er verið að reyna að lengja tímabilið þar sem liðin í 5. og 6. sæti í fyrra kláruðu sitt mót 25. feb. Þá er hreinlega spurning að fara í fjórfalda umferð og spila 28 leki í stað 20. Það er eitthvað sem ég myndi skoða með opnum hug,“ sagði Jóhann en samstarfsbróðir hans Ari Gunnarsson þjálfari Valskvenna kom með athyglisverðan punkt og það er sá hluti er snýr að sjónarhorni áhugamannsins/áhorfandans.
 
,,Mér þykir núverandi fyrirkomulag vera mjög villandi fyrir þá sem eru að fylgjast með deildinni, þessi skipting í riðla á miðju tímabili er ruglandi fyrir alla sem eru að reyna að fylgjast með,“ sagði Ari og vildi aukareitis taka upp það keppnisfyrirkomulag sem var við lýði áður en núverandi fyrirkomulag var tekið í gagnið á síðustu leiktíð.
 
Ágúst Sigurður Björgvinsson þjálfari Hamars segir það í raun ógerlegt að taka upp fyrra keppnisform. ,,Það er í raun ekki hægt að taka upp gamla keppnisfyrirkomulagið því þá þyrftum við að fækka liðum í deildinni. Það væri möguleiki að spilja fjórfalda umferð með 8 lið sem eru 28 leikir sem er klárlega spennandi kostur. Þá þyrfti samt að breyta aftur úrslitakeppninn í 4ra liða úrslit vegna leikjafjölda,“ sagði Ágúst og það er alveg ljóst að félaganna í deildinni bíða töluverðar pælingar ef menn vilja hreyfa eitthvað við núverandi fyrirkomulagi.
 
Þeir Benedikt Guðmundsson og Unndór Sigurðsson þjálfarar KR og Njarðvíkur segjast báðir vilja fleiri leiki en Unndór segir núverandi fyrirkomulag vera barn síns tíma. ,,Ég tel þetta keppnisfyrirkomulag vera barn síns tíma þegar of mikill munur var á topp 4 og neðri 4 og það eigi ekki við í dag. Núna ætti bara að hafa eina deild,“ sagði Unndór en Benedikt, eins og fleiri þjálfarar, leggur áherslu á að fjölga þurfi leikjum. ,,Fyrir mér þarf að fjölga leikjum. Bæði fyrirkomulög hafa sína kosti og galla en fyrir mér á að vera forgangsmál að fjölga leikjum í deildinni en þeir eru allt, allt of fáir,“ sagði Benedikt.
 
Eins og hefur marg sýnt sig hér á undan vilja flestir fleiri leiki í deildinni og jafnvel spila í 10 liða deild. Ef tvö lið kæmu upp úr 1. deildinni og inn í Iceland Express deildinni á næstu leiktíð þá væru tvö lið að fara upp úr 1. deild sem í dag er 6 liða deild. Í einföldum heimi yrði 1. deildin þá fjögurra liða deild nema ef önnur félög kæmu inn með kvennalið. Vart er á það teflandi að grafa undan undirstöðum 1. deildar til þess að hafa 10 lið í úrvalsdeild en þá verður að kanna möguleikana og getu/áhuga aðildarfélaga KKÍ á því að senda fleiri kvennalið til keppni í 1. deild.
 
Eitt eru allir á sáttir og það eru fleiri leikir. Hvernig skuli koma þeim við er úrlausnarefni fyrir hreyfinguna sem heldur sitt næsta ársþing árið 2011.
 
Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -